Prins er fæddur

Vilhjálmi Bretaprins og Katrínu, hertogaynju af Cambridge, fæddist sonur í dag. Drengurinn kom í heiminn á St. Mary sjúkrahúsinu í Paddington í London. Þetta er fyrsta barn ungu hjónanna og jafnframt þriðji erfinginn í erfðaröð bresku krúnunnar.

Móður og barni heilsast vel og munu þau dvelja á spítalanum í nótt. Drengurinn kom í heiminn kl. 4.24 að breskum tíma og var hann fimmtán merkur. Svo virðist sem Katrínu hafi orðið að ósk sinni. Þegar hún var gengin um tuttugu vikur kvaðst Katrín ekki vita kyn barnsins en sagðist gjarnan vilja eignast son. 

Þegar tilkynnt var um fæðingu drengsins, brutust fram gríðarmikil fagnaðarlæti við spítalann og einnig við Buckingham-höll, en þar höfðu fjölmargir safnast saman. Talið er að um 1000 blaðamenn og ljósmyndarar hafi verið við sjúkrahúsið þar sem sonur Vilhjálms og Katrínar fæddist.

Rúmlega 100 ár eru síðan fjórar kynslóðir konungsborins fólks hafa verið á lífi samtímis, en það gerðist síðast árið 1894 þegar Játvarður VIII. fæddist.

Reiknað er með að foreldrarnir fari heim með barnið á morgun ef ekkert óvænt kemur upp á. Þá gefst ljósmyndurum við St. Mary-sjúkrahúsið loksins tækifæri til að ná mynd af barninu.

Sérstök stund fyrir Vilhjálm og Katrínu

Karl Bretaprins, faðir Vilhjálms, fagnaði í kvöld fæðingu drengsins. „Við hjónin erum afar ánægð með fæðingu fyrsta barnabarns okkar. Þetta er ótrúlega sérstök stund fyrir Vilhjálm og Katrínu og við samgleðjumst þeim innilega.“

„Fjöldi fólk hefur sagt mér að það að vera afi og amma sé einstakur tími í lífi hvers einstaklings,“ sagði Karl Bretaprins. „Ég er því ótrúlega stoltur og ánægður að vera afi í fyrsta skipti og við hlökkum mjög til að sjá barnið.“

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, óskaði Vilhjálmi og Katrínu til hamingju í kvöld. Hann sendi frá sér Twitterskilaboð þar sem David sagðist fagna komu drengsins. „Allt landið mun fagna,“ sagði hann. „Þau verða frábærir foreldrar.“

Samkvæmt gamalli hefð gengu heilbrigðisstarfsmenn frá formlegum pappírum um fæðingu barnsins og þeim var síðan ekið til Buckingham-hallar og afhentir Elísabetu drottningu. Opinber tilkynning um fæðingu barnsins var síðan fest upp við hlið hallarinnar.

AFP
Skjalið þar sem tilkynnt var um fæðingu drengsins.
Skjalið þar sem tilkynnt var um fæðingu drengsins. Sky News
Fagnað við St. Mary spítalann í London.
Fagnað við St. Mary spítalann í London. Guardian
Ed Perkins, fjölmiðlafulltrúi konungsfjölskyldunnar, með skjalið þar sem fæðing prinsins …
Ed Perkins, fjölmiðlafulltrúi konungsfjölskyldunnar, með skjalið þar sem fæðing prinsins var staðfest. Guardian
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert