Ítreka tilkall sitt til Falklandseyja

Forseti Argentínu, Cristina Fernandez de Kirchner, á fundi Öryggisráðs Sameinuðu …
Forseti Argentínu, Cristina Fernandez de Kirchner, á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. AFP

Forseti Argentínu, Cristina Kirchner, ítrekaði í dag tilkall ríkisins til yfirráða yfir Falklandseyjum, gagnvart Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. 

Argentína var kjörin til setu í Öryggisráði SÞ í fyrra og fer Kirchner nú með forsætið. Hún stýrði því fundi ráðsins í dag. Hún minnti á að árið 1964 hefði Öryggisráðið samþykkt ályktun þar sem Bretland og Argentína voru hvött til samningaviðræðna um fullveldi eyjanna. Þær hafa verið undir stjórn Bretlands frá árinu 1933.

„Þetta eru ekki einhverjir draumórar okkar. Við viljum einfaldlega að Sameinuðu þjóðirnar fylgi eftir ályktun og að ríkin setjist niður og ræði málið,“ sagði Kirchner á fundinum í dag. Hún vakti máls á deilunni í kjölfar þess að Ban Ki-moon tilkynnti henni í gær að Bretar hefðu enn á ný hafnað því að taka upp viðræðu um Falklandseyjar.

Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram á Falklandseyjum í mars síðast liðnum, þar sem 99,8% eyjaskeggja greiddu atkvæði með því að vera áfram undir bresku krúnunni. Stjórnvöld í Argentínu hafna hins vegar niðurstöðunni og segja hana marklausa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert