Möguleg hernaðaríhlutun undirbúin

Chuck hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Chuck hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur hafið undirbúning fyrir mögulega ákvörðun Baracks Obama Bandaríkjaforseta um að beita hervaldi vegna ástandsins í Sýrlandi. Þetta kom fram í máli Chucks Hagels, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í gær samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að bandarískir herforingjar hafi sett fram ýmsar mögulegar leiðir fyrir Obama í þeim efnum taki hann ákvörðun um að ráðast gegn stjórnvöldum í Sýrlandi að sögn Hagels en þau eru meðal annars grunuð um að hafa beitt efnavopnum gegn uppreisnarmönnum í landinu. Hins vegar vildi hann ekki í samtali við blaðamenn veita nokkrar upplýsingar um staðsetningu bandarískra hersveita sem hugsanlega yrði hægt að beita.

Fréttir berast á sama tíma um að bandaríski sjóherinn ætli að auka umsvif sín í Miðjarðarhafinu og verða fjögur herskip staðsett undan ströndum Sýrlands. Öll skipin eru búin Tomahawk-eldflaugum. Ætlunin er að gera varnarmálaráðuneytinu mögulegt að grípa skjótt til aðgerða ákveði Obama að grípa til vopna gegn sýrlenskum stjórnvöldum.

Hagel lagði áherslu á að forsetinn hefði óskað eftir því við varnarmálaráðuneytið að það kortlegði möguleikana í stöðunni sem það hefði gert. Hins vegar hefði engin ákvörðun verið tekin um það hvort gripið yrði til hernaðaraðgerða. Bandarísk stjórnvöld myndu hins vegar starfa náið með bandamönnum sínum í málinu.

„Alþjóðasamfélaginu ber og mun starfa saman að málum sem þessum,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert