Obama ræðir við ráðgjafa sína

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hitti helstu ráðgjafa sína á sviði þjóðaröryggis í morgun til þess að ræða viðbrögð við meintri notkun sýrslenskra stjórnvalda á efnavopnum gegn eigin þegnum. Fréttaveitan AFP greinir frá þessu í dag.

Haft er eftir talsmanni Hvíta hússins að Obama hafi fyrirskipað leyniþjónustunni að safna upplýsingum og sönnunargögnum svo hægt væri að átta sig á því sem gerst hefði í Sýrlandi. Þegar þeirri vinnu væri lokið myndi forsetinn taka upplýsta ákvörðun um viðbrögð við ástandinu í landinu. Ennfremur er haft eftir honum að ýmsir möguleikar séu í stöðunni en bandarísk stjórnvöld muni bregðast við í samræmi við þjóðaröryggishagsmuni Bandaríkjanna og mat á því hvernig best verði náð markmiðum þeirra í Sýrlandi.

Vaxandi þrýstingur hefur verið á Obama að bregðast við fréttum af notkun efnavopna í Sýrlandi sem fullyrt er að hafi orðið um 1.300 manns að bana. Forsetinn hafði áður sagt að notkun slíkra vopna gæti kallað á bein afskipti vestrænna ríkja af átökunum í landinu. Sýrlensk stjórnvöld hafa hins vegar hafnað ásökunum um að hafa beitt efnavopnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert