Mistök að leyfa Grikkjum að nota evruna

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Það voru mistök að leyfa Grikkjum að gerast aðilar að evrusvæðinu á sínum tíma. Þetta sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í gær og beindi spjótum sínum að þýskum jafnaðarmönnum sem voru við völd landinu þegar Grikkland fékk heimild til þess að taka upp evruna sem gjaldmiðil sinn.

„Efnahagskrísan varð til yfir margra ára tímabil fyrir tilstilli grundvallargalla á evrunni. Til dæmis hefði aldrei átt að leyfa Grikkjum að verða hluti af evrusvæðinu,“ sagði Merkel á kosningafundi í bænum Rendsburg í norðvesturhluta Þýskalands samkvæmt frétt AFP en þingkosningar eru í landinu í næsta mánuði.

Benti hún á að forveri hennar í embætti, jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, hefði samþykkt aðild Grikkja að evrusvæðinu sem hafi dregið úr stöðugleika þess. Sagði hún þá ákvörðun hafa verið ranga í grundvallaratriðum.

Grikkland og evrusvæðið hafa orðið að einu helsta umræðuefninu í kosningabaráttunni á síðustu metrum hennar. Síðastliðinn laugardag sagði Merkel ennfremur á kosningafundi að Þjóðverjar „þyrftu ekki að heyra það frá þeim sem hefðu samþykkt Grikki inn á evrusvæðið að Grikkland væri í dag vandamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert