Búast við árás á hverri stundu

Barack Obama
Barack Obama AFP

Sýrlensk stjórnvöld eiga von á því að Bandaríkin ráðist á landið á hverri stundu, og eru tilbúin að svara í sömu mynt. Þetta hefur Afp eftir hátt settum embættismanni í Sýrlandi. Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir það „algjört kjaftæði“ að sýrlensk stjórnvöld hafi beitt efnavopnum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti og John Kerry utanríkisráðherra gáfu mjög sterklega til kynna í gærkvöld að aðgerðir væru yfirvofandi í Sýrlandi.

Vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna yfirgáfu Sýrland í morgun, fyrr en búist var við. Þar með er sagt að brautin sé rudd fyrir Bandaríkjamenn að gera árás. Endanlegrar niðurstöðu rannsónka þeirra er þó ekki að vænta strax, en þeir munu kynna Ban Ki-Moon bráðabirgðaniðurstöður sínar nú um helgina.

Friðarverðlaunahafinn hafi fórnarlömbin í huga

Pútín skoraði í dag á ríkisstjórn Bandaríkjanna að leggja fram sönnunargögn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ljóst er að hundruð barna og fullorðinna létu lífið í árásunum, en sýrlensk stjórnvöld vísa ábyrgðinni á hendur uppreisnarmanna og saka Bandaríkjamenn um lygar. 

En Pútín, sem ræddi við fjölmiðla í borginni Vladivostok fyrir stundu, skorar á Barack Obama Bandaríkjaforseta, sem friðarverðlaunahafa Nóbels, að hugleiða framtíð fórnarlambanna í Sýrlandi áður en hann grípi til vopna.

Pútín sagði það fáránlegt að kenna sýrlenskum stjórnvöldum um árásina þann 21. ágúst. „Hersveitir sýrlenskra stjórnvalda eru í sókn og hafa umkringt uppreisnarmenn á nokkrum svæðum,“ sagði forsetinn.

Við slíkar aðstæður væri það algjör þvæla að láta trompið sitt upp í hendurnar á þeim sem kalli eftir hernaðaraðgerðum.

Rússar hafa verið helstu bandamenn sýrlenskra stjórnvalda í átökunum síðustu tvö ár. Þeir vara við því að hvers kyns einhliða hernaðaraðgerðir sem hundsi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna teldist brot á alþjóðalögum.

Vladimir Putin
Vladimir Putin AFP
Forseti Sýrlands Bashar al-Assad
Forseti Sýrlands Bashar al-Assad AFP
John Kerry staðhæfði í gær að 1.429 hefðu látið lífið …
John Kerry staðhæfði í gær að 1.429 hefðu látið lífið í efnavopnaárásum stjórnvalda í Sýrlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert