Zimmerman handtekinn á nýjan leik

George Zimmerman
George Zimmerman AFP

George Zimmerman, sem sýknaður var af ákæru um að hafa myrt Trayvon Martin, var handtekinn í dag fyrir heimilisofbeldi. Zimmerman var sleppt en talið er að hann hafi ógnað Shellie Zimmerman sem nýverið óskaði eftir skilnaði við George eftir sex ára hjónaband. Þá á hann að hafa ógnað foreldrum Shellie einnig.

Enn eru málsatvik á reiki en samkvæmt fjölmiðlum vestra mun Shellie Zimmerman hafa hringt í Neyðarlínuna og í samtalinu sagt George vera fyrir utan heimili foreldra hennar, þar sem hún dvelur, vopnaðan skammbyssu. Hann hafi bæði ógnað og hótað henni og foreldrum hennar. Þá sagði hún að George hefði lagt hendur á föður sinn. 

George sem er 29 ára var sleppt að skýrslutöku lokinni.

George Zimmerman var ákærður fyrir að hafa myrt hinn 17 ára Trayvon Martin, en Martin var svartur. Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum.

Málið vakti miklar tilfinningar hjá þeim sem töldu að Zimmerman hefði dæmt Martin út frá kynþætti hans. 

Zimmerman, sem var sjálfboðaliði í nágrannavörslu, var sakaður um að hafa elt Martin gegnum lokað hverfi í Sanford í Flórída og skotið hann að kvöldi 26. febrúar í fyrra.

Verjandi Zimmermans segir að hann hafi skotið Martin í sjálfsvörn eftir að Martin hafði hann undir í götunni og barði höfði Zimmermans við malbikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert