Koma af fjöllum hjá Pravda

John McCain.
John McCain. AFP

Allsérstakt mál er komið upp eftir að fregnir bárust af því í gær að rússneska dagblaðið Pravda hefði boðið bandaríska öldungadeildarþingmanninum John McCain að skrifa viðhorfsgrein í blaðið til að svara grein Valdimírs Pútín Rússlandsforseta í New York Times. Enginn kannast nefnilega við málið hjá Prövdu.

Valdimír Pútín Rússlandsforseti skrifaði grein í bandaríska dagblaðið The New York Times sem birtist á fimmtudag. Þar ákallar hann bandarískan almenning í Sýrlandsmálinu. Hann segir að ef Bandaríkin geri árás á skotmörk í Sýrlandi þá gæti það leitt af sér nýja bylgju hryðjuverka.

John McCain gagnrýndi grein Pútíns harðlega og sagði hana móðgun við Bandaríkjamenn. Tímaritið Foreign Policy greindi svo frá því í gær að Dmitry Sudakov, einn ritstjóra Prövdu, hefði boðið McCain að birta viðhorfsgrein í blaðinu til að svara grein Pútíns. Brian Rogers, talsmaður McCains, sagði öldungadeildarþingmanninn hafa tekið tilboðinu og að hann myndi senda inn grein.

En Gennady Zyuganov, leiðtogi kommúnistaflokksins í Rússlandi, kannast ekki við boðið og sagði undarlegt að McCain hefði ekki haft fyrir því að láta flokksforystuna eða ritstjóra Prövdu vita af greinarskrifum sínum.

Boris Komotsky, ritstjóri Pravda tók í sama streng. „Það er aðeins ein Pravda í Rússlandi og hún er málgagn kommúnistaflokksins. Við höfum ekkert heyrt af fyrirætlan öldungadeildarþingmanns Repúblikanaflokksins.

Talið er að ruglinginn megi rekja til þess að blaðamenn Foreign Policy hafi haft samband við fréttavefinn Pravda.ru en hann hefur engin tengsl við dagblaðið Pravda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert