Gefi betri mynd af Evrópusambandinu

Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB.
Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB. AFP

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Herman van Rompuy, vill að endurskoðendur sambandsins dragi úr gagnrýni sinni á bókhald þess til þess að komast megi hjá neikvæðri umfjöllun fjölmiðla um það. Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fram kemur í fréttinni að van Rompuy hafi síðastliðið fimmtudagskvöld minnt endurskoðendurna á það að bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlar gerðu sér mat úr skýrslum þeirra um bókhald Evrópusambandsins. „Á hverju ári skila þær sér í fyrirsögnum um að enn eina ferðina hafi reikningar ESB ekki verið samþykktir með villandi staðhæfingum um fjársvik og óstjórn. Þið og ég vitum að slíkar fyrirsagnir geta verið misvísandi.“

Van Rompuy sagði ennfremur að miðað við það hvernig fjölmiðlar fjölluðu um málið og áhrif þess á almenningsálitið í sumum ríkjum ESB ættu endurskoðendurnir að taka til skoðunar hvernig þeir gætu stuðlað að betri fjölmiðlaumfjöllun. Forsetinn sagðist gera sér grein fyrir því að endurskoðendunum bæri skylda til þess að segja rétt frá bókhaldi sambandsins en þeir hefðu líka þá skyldu sem ESB-stofnun að bæta ímynd þess og miðla kostum þess til almennings.

Haft er eftir talsmanni Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, að eina leiðin til þess að minnka gagnrýni á bókhald ESB sé að varpa frekara ljósi á það en ekki minna. „Vitleysa af þessu tagi er nákvæmlega ástæðan fyrir því að forsætisráðherrann vill koma á umbótum innan ESB og leyfa bresku þjóðinni að kjósa um aðildina að sambandinu.“

Fram kemur í fréttinni að endurskoðendur ESB hafi, frá því að þeim var gert skylt að senda frá sér árlega skýrslu um fjármál sambandsins árið 1994, ekki getað staðfest reikninga þess vegna víðtækrar óreglu í bókhaldinu og þar á meðal fjársvika.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert