Tvö þúsund herforingjar flúið til Jórdaníu

Uppreisnarmenn í Sýrlandi.
Uppreisnarmenn í Sýrlandi. AFP

Rúmlega 2.100 yfirmenn úr sýrlenska stjórnarhernum hafa flúið til Jórdaníu frá því að átökin í Sýrlandi hófust árið 2011. Þetta kemur fram í frétt AFP og haft eftir Hussein Majali, innanríkisráðherra Jórdaníu.

Ennfremur er haft eftir ráðherranum að Jórdanía verði áfram griðastaður fyrir þá sem flýja átökin í Sýrlandi svo lengi sem það ógni ekki öryggi landsins og stöðugleika innan þess. Samkvæmt tölum frá jórdönskum stjórnvöldum og Sameinuðu þjóðunum eru yfir 500 þúsund sýrlenskir flóttamen í Jórdaníu. Jórdanskir ráðamenn segja að í heildina séu hins vegar 1,2 milljónir Sýrlendinga í landinu að meðtöldum þeim sem bjuggu þar áður en átökin hófust.

„Ef ráðist verður á Sýrland væri stærsta ógnin gríðarlegur fólksflótti til Jórdaníu,“ er ennfremur haft eftir Majali. Hann sagði að Jórdanar væru reiðubúnir að taka við um 150 þúsund sýrlenskum flóttamönnum í viðbót. Í heildina hafa yfir tvær milljónir manna flúið Sýrland frá því að átökin hófust í landinu. Aðallega til Líbanons, Tyrklands, Jórdaníu og Íraks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert