Kýpur fær 84,7 milljónir frá AGS

Starfsmenn kýpverska bankans Laiki mótmæltu við þinghúsið í Níkósíu þegar …
Starfsmenn kýpverska bankans Laiki mótmæltu við þinghúsið í Níkósíu þegar samkomulag um björgunarpakka ESB og AGS var samþykkt í vor. AFP

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti í dag 84,7 milljóna evra lánafyrirgreiðslu til Kýpur að lokinni fyrstu yfirferð á frammistöðu ríkisins samkvæmt samkomulagi við sjóðinn.

Fyrirgreiðslan er hluti af alls 10 milljarða evra björgunarpakka til þriggja ára sem AGS og Evrópusambandið samþykktu í maí að veita Kýpur. Alls hefur Kýpur nú fengið greiddar 169,4 milljónir evra samkvæmt samkomulaginu.

Kýpur sogaðist niður í hringiðu kreppunnar árið 2012, m.a. vegna áhrifa frá efnahagsvandræðum nágrannaríkisins Grikklands. Var öllum helstu viðskiptabönkum eyríkisins lokað í 12 daga til að koma í veg fyrir bankaáhlaup.

Kýpversk stjórnvöld þurftu m.a. að taka yfir stóra viðskiptabanka, samþykkja bæði niðurskurð og skattahækkanir og selja eignir ríkisins til að uppfylla skilyrði AGS og ESB um 13 milljarða evra viðbótartekjur á móti lánafyrirgreiðslunum.

Seðlabanki Evrópu, framkvæmdastjórn ESB og AGS sögðu hinn 31. júlí að Kýpverjar væru á réttri braut. Engu að síður væru skammtímahorfur í efnahagslífinu enn slæmar með fyrirséðum 13% samdrætti 2013-2014. Ekki er spáð hagvexti á nýjan leik á Kýpur fyrr en 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert