Morðingi handtekinn 25 árum síðar

Hin 9 ára gamla Christina var kyrkt í þýsku borginni …
Hin 9 ára gamla Christina var kyrkt í þýsku borginni Osnabrück í nóvember 1987. Grunaður morðingi hennar var handtekinn í september 2013. Ljósmynd/Þýska lögreglan

Þýskur karlmaður sem handtekinn var á sunnudag hefur nú verið ákærður fyrir að myrða litla stúlku fyrir 25 árum. Málið var tekið upp að nýju, þökk sé DNA-tækninni, sem ekki var fyrir hendi þegar það var rannsakað á sínum tíma.

Hin níu ára gamla Christina fannst látin í borginni Osnabrück í nóvember 1987. Líkið bar þess merki að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi.

„Telpan heyrði ekki í vekjaraklukkunni sinni og lagði því seinna af stað í skólann og var ekki samferða vinum sínum eins og venjulega,“ hefur AFP eftir saksóknaranum Alexander Retemeyer.

„Hún stytti sér leið í gegnum garð þar sem var svolítið rökkur. Og þar gekk hún í flasið á 19 ára gömlum manni.“

Ábending barst eftir sjónvarpsumfjöllun

Ungi maðurinn reyndi að nauðga telpunni og þegar hún hótaði að segja móður sinni frá kyrkti hann hana, að sögn saksóknara. Morðinginn fannst aldrei, en föt Christinu voru geymd í innsigluðum umbúðum og með þeim húðflögur úr manninum.

„Í ljósi þeirra framfara sem orðið hafa í vísindum síðan var mögulegt að einangra erfðaefnið. Málið var tekið fyrir í sjónvarpsþættinum Aktenzeichen XY [þáttur um óleyst glæpamál] og í kjölfarið fengum við ábendingu um hinn grunaða frá áhorfanda,“ segir Retemeyer.

DNA-sýni var tekið úr hinum grunaða sem reyndist stemma við það sem geymt hafði verið frá því fyrir 25 árum. Hann var handtekinn að morgni sunnudagsins 15. september 2013 og játaði við yfirheyrslur. Maðurinn er nú 45 ára gamall. Hann situr í gæsluvarðhaldi og hefur verið ákærður fyrir bæði morð og hylmingu.

Lögreglumaðurinn gafst aldrei upp

Dagblaðið Osnabrücker Zeitung tók í fyrra viðtal við rannsóknarlögreglumanninn Horst Kuhn, sem annaðist morðrannsóknina. Hann er orðinn 73 ára gamall og kominn á eftirlaun en sagði mál Christinu litlu enn lifa með sér. Eftir 25 ár heimsótti hann vettvang morðsins enn reglulega og spurði sjálfan sig hvort honum hefði yfirsést eitthvað í rannsókninni

„Ég vona innilega að málið verði leyst einhvern daginn. Foreldranna vegna.“

Móðir stúlkunnar sagðist í viðtalinu 2012 ekki ala með sér hatur á morðingjanum en að hún hefði gjarnan viljað fá tækifæri til að horfa í augu hans og spyrja hann hvers vegna hann hefði gert þetta. 

„Stundum sé ég fyrrverandi bekkjarsystkini Christinu og þá spyr ég mig spurninga. Myndi Christina eiga börn í dag? Hvaða ævistarf hefði hún valið sér? Spurningarnar eru margar, en svörin engin.“

Umfjöllun Osnabrücker Zeitung

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert