Cameron boðar 95% lán

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ætlar í næstu viku að kynna nýjar tillögur sem miða að því að hjálpa ungu fólki að eignast þak yfir höfuðið. Tillögurnar gera ráð fyrir að fasteignakaupendur geti fengið 95% húsnæðislán.

Landsþing Íhaldsflokksins hefst í næstu viku. Cameron ætlar á þinginu að kynna nýjar tillögur í húsnæðismálum. Þær gera ráð fyrir að fólk geti fengið 95% lán til húsnæðiskaupa. Af lánsupphæðinni ætlar ríkið að ábyrgjast 15%. Nýju reglurnar eiga að taka gildi í janúar.

Cameron sagði í samtali við breska blaðið Sun on Sunday að hann vildi auðvelda ungu fólki að eignast þak yfir höfuðið. Það ylli sér áhyggjum að fólk sem hefði ágætar tekjur og ætti að spjara sig vel gæti ekki eignast íbúðarhúsnæði vegna þess hversu ósveigjanlegar lánareglurnar væru.

Grant Shapps, þingmaður Íhaldsflokksins, segir að ungt fólk neyðist til að búa heima langt fram eftir þrítugsaldri. Það þurfi að gera því kleift að eignast húsnæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert