Talinn einn sá hættulegasti

Abu Anas al-Libi
Abu Anas al-Libi

Lykilmaður í al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum var handtekinn í gær fyrir utan heimili sitt í Trípólí í Líbíu. Voru það útsendarar bandarískra yfirvalda sem handtóku Abu Anas al-Libi en hann er talinn hafa borið ábyrgð á hryðjuverkaárásum á sendiráð Bandaríkjanna í Afríku árið 1998.

En hver er þessi hryðjuverkamaður sem nánast enginn þekkir?

Libi, sem heitir réttu nafni Nazih Abdul Hamed al-Raghie, hefur verið á lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir hættulegustu hryðjuverkamenn heims í þrettán ár eða allt frá því hann var tengdur við árásirnar á sendiráð Bandaríkjanna í Keníu og Tansaníu árið 1998. FBI setti á sínum tíma 5 milljónir Bandaríkjadala, 605 milljónir króna, til höfuðs Libi.

Samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna er Libi, sem er 49 ára að aldri, haldið á rammgerðum stað utan heimalandsins, Líbíu.

Barðist gegn Gaddafi

Heimildir nátengdar Libi herma að hann hafi snúið heim til Líbíu skömmu eftir að uppreisnin gegn einræðisherranum Muammar Gaddafi braust út í febrúar 2011.

Libi barðist með uppreisnarmönnum gegn Gaddafi. Libi, sem er kvæntur fjögurra barna faðir, missti son sinn í uppreisninni en hann var drepinn af stuðningsmanni Gaddafi þegar uppreisnarmenn reyndu að ná höfuðborginni á sitt vald í október 2011.

Fjölskylda Libi hafði snúið heim til Líbíu á undan honum eða árið 2010 að frumkvæði sonar Gaddafi, Seif al-Islam. Eftir að Gaddafi var steypt af stóli lét Libi lítið fyrir sér fara en hann var ekki vinnu og fór einungis út úr húsi til þess að biðja í mosku í nágrenninu. Þangað kom hann alltaf klæddur að hætti öfgasinnaðra íslamista í Afganistan.

Heimildir herma að börn Libi hafi átt erfitt með að aðlagast lífinu í Líbíu og skólagöngu eftir að hafa verið í útlegð í mörg ár vegna voðaverka föður síns.

Fékk pólitískt hæli í Bretlandi

Á tíunda áratug síðustu aldar var Libi hluti af harðlínuhóp sem vildi steypa Gaddafi af stóli og koma á íslömsku ríki. En Gaddafi braut á bak aftur uppreisn islamistanna og snemma á tíunda áratugnum flúði Lbi til Súdans þar sem hann gekk til liðs við al-Qaeda. Þar klifraði hann hratt upp metorðastigann, einkum vegna tækni- og fjarskiptaþekkingar sinnar.

Libi ferðaðist einnig til Afganistans og Jemen áður en honum var veitt pólitískt hæli í Bretlandi en þar bjó hann í Manchester til ársins 2000. En þegar hann var ákærður af bandarískum yfirvöldum í tengslum við árásanna á sendiráðin fór hann á flótta á ný. Komst hann í skjól í Afganistan og Pakistan þar sem talibanar hafa löngum skotið skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn á flótta.

Þekkist á öri í andliti

Ali Soufan, fyrrverandi liðsmaður FBI, segir í bók sinni um al-Qaeda samtökin að hægt sé að þekkja Libi vegna örs sem hann sé með á vinstri vanga. Að sögn Soufan tók Libi þátt í aðgerðum al-Qaeda í Afganistan og þótti standa sig einstaklega vel í þjálfunarbúðum hryðjuverkasamtakanna. Varð hann fljótlega hátt settur innan samtakanna vegna margvíslegra hæfileika sinna og sá oft um að þjálfa aðra í búðum al-Qaeda.

Hryðjuverkahópurinn sem Libi starfaði með í austurhluta Afríku gerði fjölmargar árásir á Bandaríkjamenn, Breta, Frakka og Ísraela í Naíróbí á árunum 1993-4. Það var síðan árið 1998 sem hópurinn gerði árás á sendiráð Bandaríkjanna. En þann 7. ágúst 1998 sprakk bílsprengja fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í Naíróbí og létust 213 í árásinni. Um 5 þúsund særðust. Á nánast sama tíma sprakk flutningabíll hlaðinn sprengiefni fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í Tansaníu og létust 11 þar og 70 særðust. 

Al-Qaeda lýsti yfir ábyrgð á báðum tilræðunum en heimildir AFP-fréttastofunnar herma að Libi hafi meðal annars fundað með Osama bin Laden vegna þeirra í Khartoum.

Í september 2012 var greint frá því á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN að sést hefði til Libi í Trípólí. Ekki hafi tekist að handtaka hann þá vegna öryggisvandamála í Líbíu, samkvæmt frétt CNN á þeim tíma.

Það var hins vegar í gærmorgun sem ætlunarverk FBI tókst er Libi var handtekinn fyrir utan heimili sitt þar sem hann var að leggja bíl sínum.

Breska ríkisútvarpið segir að þrjú ökutæki hafi umkringt bifreið hans, rúður í bílnum hafi verið brotnar og byssan tekin af honum. Sonur Libi, Abdullah, segir að þeir sem hafi tekið föður hans hafi litið út fyrir að vera Líbíumenn og þeir hafi talað með líbískum hreim. Einhverjir þeirra hafi verið grímuklæddir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert