Skotin fyrir að ganga í skóla

Malala Yousafzai segist stefna að þátttöku í stjórnmálum í Pakistan. Þetta sagði hún í samtali við BBC í dag þar sem hún lýsti aðdragandanum að því þegar liðsmenn Talibana reyndu að myrða hana fyrir ári síðan.

Malala trúði því ekki að líf hennar væri í hættu þó að hún andmælti stefnu Talibana sem ekki vildu að stúlkur í Swat dalnum í Pakistan gengju í skóla. Talibanar gætu ekki lotið svo lágt að skjóta börn. Annað kom á daginn.

Síðastliðinn miðvikudag var ár liðið frá banatilræðinu. Daginn eftir tilkynnti mannréttindanefnd Evrópuþingsins að Malala fengi verðlaun sem kennd eru við sovéska mannréttindafrömuðinn Andrei Sakharov.

Dóttir skólastjórans

Það er mikil náttúrufegurð í Swat dalnum þar sem Malala fæddist og ólst upp. Margir ferðamenn lögðu leið sína í dalinn, en hann er ekki langt frá höfuðborg Pakistans, Islamabad.

Tiltölulega friðsælt var í Swat þegar Malala fæddist árið 1997. Fólk er þar íhaldsamt og trúað. Heimamenn hafa hins vegar lengi lagt áherslu á menntun barna sinna, en það sama verður ekki sagt um önnur héruð í norðaustur Pakistan.

Þegar Malala fæddist hafði faðir hennar, Ziauddin Yousafzai, náð að láta draum sinn um að stofna skóla rætast. Í dag stunda um þúsund nemendur nám í skólanum, bæði drengir og stúlkur.

Grænatorgið breyttist í Blóðtorg

Eftir hryðjuverkaárásina á Bandaríkin 9/11 árið 2001 breyttist margt í Pakistan. Stríð hófst í Afganistan og Talibanar, sem stýrt höfðu landinu, flúðu yfir landamærin til Pakistan. Íbúar í Swat dalnum urðu brátt varir við liðsmenn Talibana. Árið 2007 tóku þeir öll völd í dalnum. Malala segir að Talibanar hafi ekki verið eins öfgafullir í málflutningi sínum í upphafi eins og síðar varð.

Talibanar lögðu áherslu á að innleiða Sharia-lög og komu á fót eigin dómstólum. Brátt kom hins vegar að því að þeir fóru að beita þá sem óhlýðnuðust refsingum. Í miðbæ Mingora, þar sem fjölskylda Malölu bjó, er torg sem kallað er Grænatorgið. Þar stóðu Talibanar fyrir opinberum refsingum. Bæjarbúar gátu þar fylgst með hýðingum og opinberum aftökum. Fljótlega var farið að kalla torgið Blóðtorgið.

Í árslok 2008 gaf leiðtogi Talibana í Swat dalnum, Mullah Fazlullah, út opinbera tilkynningu um stúlkur ættu að hætta að sækja skóla. Þeir sem ekki hlýddu þessum fyrirmælum mættu eiga von á refsingum innan mánaðar. Þessum fyrirmælum var sérstaklega beint til þeirra sem ráku skólana. Malala segir í samtali við BBC að hún hafi á þessum tíma hugsað: „Hvernig geta þeir gert þetta?“

Ziauddin Yousafzai, faðir Malölu, og vinur hans, Ahmad Shah, sem einnig rak skóla í grenndinni, leituðu til hersins og spurðu ráða. Stjórnendur hersins hvöttu þá til að halda áfram óbreyttu skólastarfi og hétu þeim vernd.

En það var ekki auðvelt fyrir herinn að tryggja öryggi nemenda og kennara við skólann. Malala var 11 ára á þessum tíma og hún fann að breytingar voru í aðsigi.

Malala skrifaði dagbók á netinu og kom fram í sjónvarpi

Fjölmiðlar sýndu því sem var að gerast í Swat dalnum áhuga og ekki síst tilraunum Talibana til að koma í veg fyrir að stúlkur gengju í skóla. Fréttamaður BBC hafði samband við föður Malölu og lýsti áhuga á að fá að heyra viðhorf nemenda á því sem væri að gerast í Swat. Yousafzai hafði á þessum tíma getið sér orð fyrir að andmæla kröftuglega sjónarmiðum Talibana á opinberum vettvangi. Hann nefndi nafn dóttur sinnar við BBC. Niðurstaðan varð því sú að Malala hóf að skrifa dagbók á vef BBC um reynslu sína af því að ganga í skóla undir hótunum Talibana.

„Ég vildi standa á rétti mínum,“ sagði Malala, í samtali við BBC í haust. „Og ég vildi ekki að líf mitt yrði þannig að ég yrði lokuð innan fjögurra veggja heimilisins þar sem ég væri bara að elda mat og eiga börn. Ég vildi ekki að líf mitt yrði þannig.“

Dagbók Malölu var nafnlaus, en hún varð hins vegar fljótlega þekkt í Pakistan fyrir að tala opinberlega um réttindi barna. Í febrúar 2009 kom hún fram í sjónvarpsþætti þar sem hún ræddi um löngun sína til að ganga í skóla.

Pakistanski sjónvarpsmaðurinn Hamid Mir segir að hann hafi orðið mjög undrandi á að hitta svo unga stúlku sem talaði af slíku öryggi og rökfestu þetta málefni. Hún hafi sýnt mikið hugrekki því að meðan hún talaði hafi nokkrir liðsmenn Talibana staðið fyrir aftan hana. „Á sama tíma gerði ég mér grein fyrir að öryggi hennar og fjölskyldu hennar gæti verið ógnað.“

Trúði ekki að Talibanar myndu reyna að myrða börn

Malala segir sjálf að hún hafi haft áhyggjur af öryggi föður síns sem barðist kröftuglega fyrir menntun stúlkna. Hún segist hafa velt fyrir sér hvernig hún ætti að bregðast við ef Talibanar myndu ráðast inn á heimili hennar. Hún hafi hugsað að best væri að fela pabba inn í skáp og hringja svo á lögregluna.

Yousafzai segir að hann hafi ekki talið mikla hættu á að Malala yrði skotmark Talibana. Talibanar hafi framið ýmis ódæðisverk, en þeir hafi aldrei ráðist á börn. Hann hafi ekki trúað því að þeir myndu lúta svo lágt að ráðast á börn. Malala hafi hins vegar verið kröftugasta röddin sem heyrðist úr Swat dalnum. „Þegar hún ræddi um menntun lögðu allir við hlustir.“

Þegar kom fram á árið 2012 hafði pakistanska hernum tekist að hrekja Talibana út úr Swat dalnum. Stuðningsmenn Talibana sem enn voru í dalnum létu lítið fyrir sér fara. Fyrir flesta færðist lífið í fastar skorður á ný, en hættan var hins vegar ekki liðin hjá fyrir þá sem höfðu boðið Talibönum byrginn. Malala var í þeim hópi.

Martröðin í skólabílnum

9. október 2012 var venjulegur dagur hjá Malölu og skólasystkinum hennar. Eftir skóla sótti skólabíll nemendur til að aka þeim til síns heima. Slíka skólabíla má sjá um allt í Mingora. Þó að stutt hafi verið fyrir Malölu að ganga heim og hún var orðin 15 ára gömul lagði mamma hennar áherslu á að hún tæki bílinn heim. Það væri öruggara.

Malala hafði verið með hugann við próf þennan dag. Hún var jafnan hæst í sínum bekk, en þó veitti besta vinkona hennar henni harða keppni. Milli þeirra hafði lengi verið samkeppni um að fá sem hæsta einkunn á öllum prófum.

Þegar skólabíllinn nálgaðist heimili Malölu tók hún eftir að eitthvað óvenjulegt var á seyði; það var ekkert fólk á götunni. Hún hafði orð á þessu við Moniba vinkonu sína. Stuttu síðar nálguðust tveir ungir menn bílinn. Annar þeirra sagði: „Hver er Malala?“ Enginn sagði neitt en öllum varð hins vegar litið á Malölu. Moniba sagðist hafa velt fyrir sér hvort þetta væru blaðamenn sem vildu ná tali af Malölu, en hún sagðist hins vegar hafa skynjað að Malala var hrædd.

Þegar mennirnir tveir höfðu áttað sig á hvar Malala sat tóku þeir upp byssu og skutu á hana. Tvær aðrar stúlkur sem sátu í bílnum, Shazia Ramzan og Kainat Riaz, urðu einnig fyrir skotum. Blóð fossaði úr stúlkunum.

Bað fjölskylduna að undirbúa jarðarför

10 mínútur liðu þangað til sjúkralið mætti á staðinn. Stúlkurnar þrjár voru fluttar á spítala og Moniba var einnig flutt með þeim. Talið var að hún hefði líka særst vegna þess að hún hafði fallið í yfirlið og var öll í blóði.

Fréttir um það sem hafði gerst voru fljótar að spyrjast út. Faðir Malölu var staddur í blaðamannaklúbbi þegar hann fékk símhringingu frá manni sem sagði að ráðist hefði verið á skólabíl. Hann óttaðist strax að Malala hefði verið skotmarkið. Hann flýtti sér á sjúkrahúsið þar sem læknar börðust við að halda Malölu á lífi.

Læknar sögðu við Yousafzai að hann ætti að búa sig undir hið versta. Hann hafði samband við fjölskyldu sína og sagði þeim að undirbúa jarðarför.

Kúlan hafði farið inn í höfuð Malölu fyrir ofan vinstri augabrún og þaðan í gegnum hálsinn og út um bakið.  Rannsókn leiddi í ljós miklar bólgur í heila og að hún þyrfti nauðsynlega að fara strax í aðgerð. Ákveðið var að flytja hana á hersjúkrahús þar sem höfuðkúpa hennar var opnuð. Þessi aðgerð bjargaði lífi hennar.

Tveir breskir læknar voru á sjúkrahúsinu og þeir voru beðnir um að meta ástand Malölu. Þeir töldu að læknar hefðu brugðist rétt við ástandi hennar en lýstu áhyggjum af því að á sjúkrahúsinu væri ekki sú hágæða gjörgæsla sem réði við að annast svo alvarlega slasaðan sjúkling. Niðurstaðan varð því sú að Malala var flutt til Birmingham í Bretlandi. Þar voru gerðar á henni nokkrar aðgerðir sem m.a. miðuðu að því að laga þá skemmd sem varð á höfuðkúpubeininu í skotárásinni. Einnig var heyrnartæki grætt í höfuð hennar, en hún missti algerlega heyrn á öðru eyra í árásinni.

Rödd Malölu hefur ekki þagnað

Malala hefur núna náð góðri heilsu og er farin að ganga í skóla í Birmingham. Hún hefur hug á að snúa aftur til Pakistan, en ljóst er að það getur hún ekki gert fyrr en búið er að tryggja betur öryggi hennar.

Talibanar ætluðu sér að þagga niður í Malölu, en rödd hennar heyrist nú víðar en nokkru sinni áður. Hún hefur komið fram á opinberum vettvangi við ýmis tækifæri á þessu ári. Fyrir helgi hitti hún Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Á afmælisdegi sínum, 12. júlí, flutti hún ræðu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar talaði hún af öryggi og rökfestu eins og manneskja sem hefur verið í stjórnmálum í mörg ár. Hún sagði: „Eitt barn, einn kennari, ein bók og einn penni getur breytt heiminum.“

Þegar BBC spurði Malölu hvað henni finnist um ákvörðun Talibana að reyna að myrða hana svarar hún: „Ég held að þeir sjái eftir því að hafa skotið Malölu. Nú heyrist í henni í öllum heimshornum.“

Ætlar að verða stjórnmálamaður

„Í framtíðinni langar mig til að taka þátt í stjórnmálum. Mig langar til að verða leiðtogi og stuðla að breytingum í Pakistan. Þegar ég verð orðinn stjórnmálamaður ætla ég að stofna skóla og byggja upp raforkukerfið,“ sagði Malala í viðtali við Andrew Marr á BBC í morgun.

Malala Yousafzai er aðeins 16 ára gömul. Margir hafa hrifist …
Malala Yousafzai er aðeins 16 ára gömul. Margir hafa hrifist af hugrekki hennar, rökfestu og öryggi. Andrew Burton
Malala hitti í gær Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta …
Malala hitti í gær Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu. Michelle Obama og Malia dóttir forsetahjónanna, voru viðstaddar fundinn. AFP
Stúlkur í Pakistan alast upp í umhverfi þar sem ekki …
Stúlkur í Pakistan alast upp í umhverfi þar sem ekki er talið sjálfsagt mál að þær fái að njóta menntunar. AAMIR QURESHI
Ziauddin Yousafzai, faðir Malölu, rekur skóla í Swat dalnum. Hann …
Ziauddin Yousafzai, faðir Malölu, rekur skóla í Swat dalnum. Hann tók virkan þátt í að andæfa málflutningi Talibana áður en dóttir hans var skotin. Á myndinni er feðginin ásamt tveimur yngri bræðrum Malölu. AFP
Malala var skotin í höfuðið 9. október 2012 og munaði …
Malala var skotin í höfuðið 9. október 2012 og munaði litlu að hún léti lífið. MOHAMMAD REHMAN
Malala var á leið heim úr skólanum í þessum skólabíl …
Malala var á leið heim úr skólanum í þessum skólabíl þegar tveir félagar í Talibana-hreyfingunni skutu á hana.
Í vikunni kom út bók þar sem Malala segir sögu …
Í vikunni kom út bók þar sem Malala segir sögu sína. Ár er liðið frá því að reynt var að myrða hana. AAMIR QURESHI
Malala Yousafzai hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á síðustu mánuðum. Hér …
Malala Yousafzai hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á síðustu mánuðum. Hér veitir tónlistarmaðurinn Bono henni viðurkenningu fyrir hönd Amnesty International. PETER MUHLY
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert