Stúdentar fái styrk 11 mánuði ársins

Nýstúdentar.
Nýstúdentar. mbl.is/Golli

Það er ólíku saman að jafna, kjörum íslenskra og norskra stúdenta. Nú eru framundan breytingar sem bæta munu hag norskra stúdenta enn frekar, en ólíkt íslenskum kollegum sínum njóta þeir þess að fá styrk til náms frá ríkinu.

Stúdentar í Noregi eiga nú rétt á sem nemur um 1,9 milljónum íslenskra króna í styrk, sem greiðist út yfir 10 mánuði ársins. Frá og með haustinu 2014 verður þessu breytt, styrktímabilið lengt í 11 mánuði og upphæðin hækkuð í rúmlega 2,1 milljón íslenskra króna.

Styrkir til stúdenta verða þannig hækkaðir um sem nemur tæpum 230 þúsund krónum yfir árið, að því gefnu að tillaga fráfarandi ríkisstjórnar verði samþykkt.

Losna við að vinna hlutastarf með námi

Talsmaður norsku stúdentasamtakanna (NSO), Ola Magnussen Rydje, segir að hækkunin sé söguleg og frábær stuðningur við stúdenta.

„Stúdentahreyfingin hefur árum saman barist fyrir jöfnum rétti til náms. Þetta er risastórt skref í rétta átt til að tryggja að stúdentar geti varið meiri tíma þar sem þeir eiga með réttu að vera, það er að segja á bókasafninu, frekar en í vinnu í hlutastarfi,“ hefur Dn.no eftir Rydje.

Í þessu samhengi má geta þess að ungt fólk á Íslandi vinnur mest allra ungmenna á Norðurlöndum. Hér eru 52% ungmenna á aldrinum 15-19 ára við störf, samanborið við 35% í Noregi.

Stúdentaíbúðir góð fjárfesting

Í ofanálag við hærri styrki er gert ráð fyrir því á fjárlögum næsta árs í Noregi að verja 359 norskum krónum til byggingar nýrra stúdentagarða með 1.300 íbúðum.

„Fleiri stúdentaíbúðir bæta efnahag stúdenta, þær ýta leiguverðinu niður á almennum markaði og koma sér þess vegna vel fyrir alla. Stúdentaíbúðir eru einhver besta fjárfesting sem við getum ráðist í fyrir þekkingarsamfélagið,“ segir Rydje.

Fá styrk til náms í öllum löndum heims

Verðandi ríkisstjórnarflokkar, Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn, hétu sjálfir ýmsum umbótum til stúdenta í kosningabaráttunni og því líklega ólíklegt að þeir hafni tillögum fráfarandi ríkisstjórnar.

Meðal þess sem komandi ríkisstjórn vill ná í gegn er að norskir stúdentar í Bandaríkjunum fái líka fullan styrk til náms frá norska ríkinu. Í  dag fá norskir stúdentar styrk frá ríkinu til BS- og BA-náms í öllum löndum heims. Undantekningin er Bandaríkin, þar sem norskir stúdentar þurfa að taka lán fyrir fyrsta námsárinu af fjórum, en haldi þeir áfram fá þeir styrk til að ljúka prófgráðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert