Svipta þingmenn friðhelgi

Ilias Kasidiaris og Ilias Panagiotaros ásamt fleiri þingmönnum Gullinnar dögunar.
Ilias Kasidiaris og Ilias Panagiotaros ásamt fleiri þingmönnum Gullinnar dögunar. AFP

Verið er að greiða atkvæði á gríska þinginu um að svipta nokkra þingmenn Gullinnar dögunar friðhelgi. Þingmennirnir hafa verið ákærðir fyrir fyrir morð og að tilheyra glæpasamtökum. Níkos Mikhalolíakos, leiðtogi flokksins, er sakaður um að reka glæpasamtök.

Gullin dögun hefur verið skilgreind sem samtök ný-nasista en stjórnmálaflokkurinn hefur meðal annars á stefnuskrá sinni að berjast gegn innflytjendum. Gullin dögun var jaðarflokkur, sem efldist þegar kreppan skall á í Grikklandi. Í þingkosningunum í fyrra náði flokkurinn 18 mönnum á þing og fékk 6,9% atkvæða.

Stjórnvöld í Grikklandi skáru upp herör gegn liðsmönnum flokksins eftir að nýnasisti og stuðningsmaður flokksins myrti hipphopp-tónlistarmanninn Pavlos Fyssas 18. september.

Greidd eru atkvæði um að svipta þá  George Germenis, Efstathios Boukouras og Panagiotis Iliopoulos friðhelgi.

Eins þurfa þeir Ilias Kassidiaris, Ilias Panagiotaros og Chrysovalantis Alexopoulos að svara til saka fyrir minni sakir og þarf þingið því einnig að veita samþykki sitt fyrir því.

Kassidiaris og Panagiotaros eru lausir gegn tryggingu en þeir eru sakaðir um að tilheyra glæpasamtökum. Þingmenn flokksins gengu út úr þingsal áður en atkvæðagreiðslan hófst í morgun en þeir telja málið eitt stórt samsæri.

Michaloliakos og varaformaður Gullinnar dögunar, Christos Pappas og þingmaðurinn Yiannis Lagos er haldið í gæsluvarðhaldi í sérstöku öryggisfangelsi í Aþenu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert