NSA njósnaði í Noregi

Glenn Greenwald hefur tekið þátt í að birta upplýsingar úr …
Glenn Greenwald hefur tekið þátt í að birta upplýsingar úr skjölum sem Edward Snowden komst yfir. LIA DE PAULA

Bandaríski blaðamaðurinn Glenn Greenwald, sem starfar fyrir breska blaðið Guardian, segir að hann sé með gögn sem sýni að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hafi stundað njósnir í Noregi.

Þetta segir hann í samtali við Dagbladet í Noregi. Hann segir að gögn sem uppljóstrarinn Edward Snowden komst yfir sýni að NSA hafi njósnað í Noregi. Hann segist á þessu stigi ekki reysta sér til að svara því hvort njósnirnar hafi beinst að einstaklingum eða fyrirtækjum í Noregi.

Greenwald segir að það sé gríðarleg vinna að fara í gegnum gögnin frá Snowden. Um sé að ræða þúsundir skjala. Þau séu brotin upp í hluta og það geti verið tæknilega erfitt að lesa úr þeim.

Guardian sagði frá því í vikunni að NSA hefði hlerað síma hjá 35 þjóðhöfðingjum víða um heim, m.a. leiðtogum Þýskalands, Brasilíu og Mexíkó. Greenwald vill ekki svara því hvort sími stjórnmálamanna í Noregi hafi verið hleraðir. Hann segist ekki hafa unnið með þau skjöl þar sem fram kemur símar hvaða þjóðhöfðingja voru hleraðir.

Talsmaður Angelu Merkel kanslara Þýskalands sagði í gærkvöldi að ákveðið hefði verið að yfirmenn þýsku leyniþjónustunnar færu til Washington í næstu viku til viðræðna við stjórnvöld í Bandaríkjunum um njósnir NSA í Þýskalandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert