Franskir blaðamenn myrtir í Malí

Þau Ghislaine Dupont og Claude Verlon fundust í dag látin …
Þau Ghislaine Dupont og Claude Verlon fundust í dag látin utan við bæinn Kidal í Malí.

Tveir fréttamenn frá frönsku útvarpsstöðinni RFI voru myrtir í bænum Kidal í Malí í Afríku. Þeim Claude Verlon og Ghislaine Dupont var rænt, eftir að hafa tekið viðtal við stjórnmálaleiðtoga í landinu. Lík þeirra fundust í dag, utan við bæinn.

Francois Hollande Frakklandsforseti fordæmir morðin og segir þau viðurstyggileg. Aðeins eru nokkrir dagar síðan Frakkar fögnuðu því að endurheimta fjóra landa sína úr gíslingu eftir að þeim var rænt í Afríkuríkinu Níger. Þeim hafði verið haldið í 3 ár í eyðimörkinni í Norður-Malí.

BBC hefur eftir Radio France International að þau Verlon og Dupont hafi verið í sinni annarri vinnuferð til Kidal, en þau heimsóttu bæinn fyrst í júlí síðastliðnum til að fjalla um fyrri umferð forsetakosninganna í landinu.

Þau höfðu nýlokið við að taka viðtal við leiðtoga stjórnmálahreyfingar Tuareg-þjóðflokksins, Ambeiry Ag Rhissa, þegar vopnaðir menn réðust á þau fyrir utan heimili hans og þvinguðu þau upp í bíl. Lík þeirra fundust úti í eyðimörkinni við bæinn síðar um daginn.

Þau voru bæði á sextugsaldri og er lýst sem ástríðufullum og reynslumiklum blaðamönnum, ekki síst um málefni Afríku.

Bærinn Kidal er í miðju átakasvæðis þar sem aðskilnaðarinnar af hirðingjaættbálkinum Tuareg takast á við aðra Malímenn um aðskilnað og sjálfstæði. Um 200 franskir hermenn og 200 friðargæsluliðar frá Sameinuðu þjóðunum eru með viðveru í Kidal.

Fréttaritari BBC í Malí segir það koma verulega á óvart að mannrán og morð á erlendum blaðamönnum skuli geta átt sér stað fyrir framan nefið á þessu fjölmenna herliði.

Frá bænum Kidal í Afríkuríkinu Malí.
Frá bænum Kidal í Afríkuríkinu Malí. AFP
Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna að störfum í bænum Kidal í Malí.
Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna að störfum í bænum Kidal í Malí. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert