Lá á sjúkrahúsi við hlið morðingjans

Lögreglan að störfum í Sao Paulo.
Lögreglan að störfum í Sao Paulo. AFP

Kona sem lögð var inn á sjúkrahús í Sao Paulo í Brasilíu með skotsár lá í sjúkrarúmi við hlið mannsins sem særði hana og skaut eiginmann hennar og dóttur til bana. 

„Þetta er eins og í sápuóperu,“ hefur brasilískur fréttavefur eftir lögregluvarðstjóranum Luiz Roberto Bilo. 

Bilo fer fyrir rannsókn skotárásarinnar. Hann segir enn ekki ljóst hver ástæða árásarinnar var. Þá sé óljóst hvort árásarmaðurinn var einn að verki.

Morðið náðist á öryggismyndavél sem var um borð í strætisvagni. Fyrir utan vagninn var öryggisvörður skotinn til bana. Eiginkona hans og fimm ára dóttir reyndu að flýja með því að fara um borð í strætisvagninn en árásarmaðurinn náði að skjóta á þær. Stúlkan lést en farið var með móður hennar á næsta sjúkrahús. Hún var alvarlega slösuð.

Nokkrum klukkustundum síðar lenti árásarmaðurinn í slagsmálum fyrir utan næturklúbb og hlaut skotsár. Fyrir einskæra tilviljun var hann fluttur á sama sjúkrahús og í lagður í sjúkrarúm í sama herbergi og konan sem hann hafði skotið fyrr um daginn.

Árásarmaðurinn hefur oft komið við sögu lögreglunnar áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert