Engu nær um ástæðu fjöldamorðanna

Adam Lanza framdi fjöldamorð og svipti sig lífi tvítugur að …
Adam Lanza framdi fjöldamorð og svipti sig lífi tvítugur að aldri.

Adam Lanza, ungi maðurinn sem myrti 26 börn og kennara í Sandy Hook grunnskólanum í Newtown í fyrra, var með fjöldamorðin í Columbine á heilanum. Þetta kemur fram í 44 blaðsíðna skýrslu sem gefin var út í dag, þegar rannsókn málsins var formlega lokið. 

Fjöldamorðin í Newtown í október 2012 voru þau önnur blóðugustu í sögu Bandaríkjanna. Adam Lanza, sem var tvítugur að aldri, byrjaði á því að myrða móður sína áður en hann réðst inn í Sandy Hook grunnskólann og hóf miskunnarlausa skothríð sem stóð í 11 mínútur. 20 börn í fyrsta bekk féllu í valinn og 6 fullorðnir.

„Með útgáfu þessarar skýrslu er rannsókn málsins lokið,“ segir í skýrslunni, sem CNN greinir frá en hægt er að lesa í heilu lagi á vef ríkissaksóknara Connecticut ríkis. Þann 14. desember verður liðið eitt ár frá fjöldamorðunum.

Skipulagði morðin í þaula

„Fyrirliggjandi sönnunargögn taka af allan vafa um það að árásarmaðurinn skipulagði aðgerðirnar, þar á meðal að svipta sig lífi, en það er engan veginn ljóst hvers vegna hann gerði það eða hvers vegna hann valdi Sandy Hook grunnskólann sem skotmark,“ segir í skýrslunni sem birt var í dag.

Þar kemur jafnframt fram að Lanza hafi glímt við geðsjúkdóm sem var honum hindrun í daglegu lífi og samskiptum við annað fólk. Alls óvíst er þó hvort geðsjúkdómur hans hafi beinlínis átt nokkurn þátt í því að hann ákvað að gerast fjöldamorðingi.

Geðlæknar sem unnið höfðu að máli hans sáu engin merki um árásarhneigð eða ógnandi tilburði í fari hans. „Hin augljósa spurning er: Hvers vegna myrti árásarmaðurinn 27 manns, þar á meðal 20 börn?“ segir í skýrslunni. Þeirri spurningu verði hins vegar ekki svarað með vissu.

Með fjöldamorð og skotvopn á heilanum

Ljóst er eftir að einkalíf hans var rannsakað að Lanza var með fjöldamorð á heilanum og hafði mikinn áhuga á skotvopnum.

Fjöldamorðin í Columbine skólanum í Colorado í apríl 1999 virtust honum sérstaklega hugleikinn. Í Columbine voru það tveir unglingspiltar sem hófu skothríð og myrtu 12 nemendur og einn kennara.

Við rannsókn á tölvu Lanza fundust langar útlistanir á fjöldamorðum liðinna ára og tvö myndbönd sem útskýrðu hvernig best væri að svipta sig lífi með skotvopni. Einnig átti hann bæði kvikmyndir og tölvuleik um skotárásir í skólum. Þá hafði hann tekið a.m.k. 2 sjálfsmyndir þar sem hann sést beina byssu að eigin höfði.

Í herbergi hans fannst einnig harður diskur sem virtist hafa verið eyðilagður að yfirlögðu ráði og tókst rannsóknarlögreglunni ekki að endurheimta það efni sem á honum var.

Ástvinir hinna myrtu vonsviknir

Skýrslan er mikil vonbrigði, að mati fjölskyldu Victoriu Soto, kennara sem var skotinn til bana þegar hún reyndi að bjarga nemendum sínum undan morðingjanum. Í yfirlýsingunni frá fjölskyldunni segir: 

„Á meðan sumir leita að svörum við því hvers vegna þetta gerðist, þá spyrjum við okkur hvernig. Hvernig getum við lifað án Vicki? Hvernig eigum við að halda upp á jólin án Vicki? Hvernig getum við haldið áfram dag hvern þegar skarð hefur verið höggvið í fjölskylduna? Þetta eru spurningarnar sem við leitum svara við. Það er ekkert í þessari skýrslu sem svarar þeim fyrir okkur.“

Ríkisstjóri Connecticut, Dannel Malloy, sagði að skýrslan væri án efa erfið ættingjum þeirra sem létu lífið í Sandy Hook.

„En ef það er eitthvað sem ég tel að við verðum að gera þá er það að heiðra líf þeirra sem við misstum með því að taka skref í þá átt að vernda okkur fyrir frekari hryllingi eins og þessum,“ sagði Malloy og bætti við að hann vonaði að upplýsingarnar í skýrslunni gætu hjálpað til þess að það mætti verða.

Ekkert varð úr hertri skotvopnalöggjöf

Í kjölfar fjöldamorðanna í Sandy Hook kviknaði mikil umræða um skotvopnamenningu í Bandaríkjunum og gerði Barack Obama Bandaríkjaforseti tilraun til að koma frumvarpi um herta skotvopnalöggjöf gegnum þingið, án árangurs. Í frumvarpinu var lagt bann við sölu hríðskotavopna.

Fimm byssur voru á heimili Lanza. Fjórar af þeim hafði hann á sér þegar hann skaut sig en þá fimmtu skyldi hann eftir heima hjá sér eftir að hafa myrt móður sína. Móðir hans átti a.m.k. 3 af byssunum, það voru árásarriffill og tvær hálfsjálfvirkar skammbyssur.

Adam Lanza sem ungur skóladrengur.
Adam Lanza sem ungur skóladrengur.
„Saman erum við sterk,
„Saman erum við sterk," sagði á borða við minningarreit um hin látnu í smábænum Newtown í Connecticut í fyrra. AFP
Skólarúta í smábænum Newtown. Sandy Hook grunnskólinn hefur nú verið …
Skólarúta í smábænum Newtown. Sandy Hook grunnskólinn hefur nú verið rifinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert