Berlusconi sviptur þingsætinu

Ítalska þingið samþykkti í dag tillögu um að reka Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra landsins, af þingi. Það var gert í kjölfar þess að Berlusconi var fyrr á árinu fundinn sekur um skattsvik.

Í dómsorðunum var tekið fram að Berlusconi fengi fimm ára bann frá stjórnmálum, en áður en slíkt bann tæki gildi þurfti ítalska þingið að kjósa um málið. Var það gert í dag, og klukkan 16:42 lá niðurstaðan fyrir: Berlusconi fær ekki lengur að sitja á þingi. 

Þúsundir stuðningsmanna söfnuðust saman

Silvio Berlusconi sagi að dagurinn í dag sé dagur biturðar og sorgar fyrir lýðræðið. Þúsundir stuðningsmanna forsætisráðherrans fyrrverandi höfðu í dag safnast saman  fyrir utan heimili hans í Róm. Í ávarpi sínu fyrir framan mannfjöldann sagði hann meðal annars að vinstrimenn hafi stillt honum upp fyrir framan aftökusveit.

Stuðningsmenn fyrrum forsætisráðherrans fögnuðu Berlusconi vel og innilega, og mátti heyra bæði þjóðsönginn sunginn, auk þess sem margir stuðningsmenn hoppuðu upp og niður á meðan þeir kölluðu: „Chi non salta, communista è,“ eða „Sá sem hoppar ekki, er kommúnisti.“

„Frá og með deginum í dag getum við ekki lengur verið viss um réttindi okkar, eigur eða frelsi,“ sagði hinn 77 ára gamli Berlusconi.

Í ræðu sinni sagði Berlusconi enn fremur að hann muni ekki gefast upp, heldur muni hann áfram vera formaður flokksins Forza Italia (ísl. Áfram Ítalía) og að hann muni bjóða sig fram í næstu þingkosningum.

Berlusconi er nú annar formaður stjórnmálaflokks á ítalska þinginu sem situr sjálfur utan þings. Beppe Grillo, formaður Fimmstjörnu hreyfingarinnar, er einnig utan þings, en hann má ekki taka sæti á þingi vegna dóms sem hann hlaut fyrir manndráp af gáleysi árið 1980.

Einnig er búist við að borgarstjóri Flórens taki við stjórn Demókrataflokksins af Guglielmo Epifani í flokkskjöri sem fer fram á næstunni. Þá gæti staðan orðið þannig að flokksformenn þriggja flokka á ítalska þinginu, sitji utan þings. 

Silvio Berlusconi ávarpar stuðningsmenn sína fyrir framan heimili sitt í …
Silvio Berlusconi ávarpar stuðningsmenn sína fyrir framan heimili sitt í Róm Mynd/AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert