Skotinn á leiðinni í skólann

Börn rétta hendur sínar inn um glugga á höfuðstöðvum franskra …
Börn rétta hendur sínar inn um glugga á höfuðstöðvum franskra hermanna í Bangui. Þau biðja um mat. AFP

„Með degi hverjum sjáum við fleiri særð og látin börn,“ segir Souleymane Diabate, starfsmaður UNICEF í Mið-Afríkulýðveldinu. UNICEF vinnur nú að því að koma neyðarbirgðum til sjúkrahúsa í höfuðborg Bangui. Fleiri hundruð manns hafa látist í átökum í landinu síðustu daga og mörg þúsund hafa þurft að flýja heimil sín.

„Börn eru ekki örugg í Mið-Afríkulýðveldinu, hvort sem þau eru múslímar eða kristin,“ segir Diabate. „Þau eiga á hættu að særast eða deyja á heimilum sínum, í bæjunum og jafnvel á þeim stöðum sem þau hafa fluið til. Þetta er algjörlega óásættanlegt.“

Frá því á fimmtudaginn í síðustu viku hafa um 400 manns týnt lífi í átökunum samkvæmt Rauða krossinum, þeirra á meðal eru þrjú börn.

Samkvæmt upplýsingum UNICEF hafa 30 börn komið særð á sjúkrahús í Bangui, ýmist eftir byssuskot eða sveðjur.

UNICEF náði að koma neyðarbirgðum til stærsta sjúkrahússins í Bangui á laugardag, tveimur dögum eftir að átökin brutust út í höfuðborginni. Þær nægja til að sinna um 3.000 særðum.

Aðeins einn barnaspítali er í landinu og hefur UNICEF einnig komið þangað lækningavörum, fatnaði og viftum. 

„Þetta er í fyrsta sinn sem eitthvað í þessa veru hendir mig, hendir okkur,“ hefur UNICEF eftir hinum sautján ára gamla Kelley í fréttatilkynningu. Hann liggur með skotsár í brjóstinu á sjúkrahúsinu. Hann var skotinn á leið í skólann í síðustu viku. „Ég óttast um fjölskyldu mína, vini mína og landið mitt.“

Í nóvemberlok hafði UNICEF fengið innan við helming þeirra fjármuna sem þarf til að sinna neyðaraðstoð í ár. Stofnunin ætlar sér að safna um 46 milljónum bandaríkjadala á næsta ári til að sinna börnum í Mið-Afríkulýðveldinu.

Fjölskylda á flótta undan átökunum í Mið-Afríkulýðveldinu.
Fjölskylda á flótta undan átökunum í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP
Börn í Mið-Afríkulýðveldinu.
Börn í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert