Sænskur stjórnmálamaður varði Breivik

Fulltrúar Svíþjóðardemókrata mæta hér til þingsetningar sænska þingsins
Fulltrúar Svíþjóðardemókrata mæta hér til þingsetningar sænska þingsins

Marie Stensby, fyrrum varafulltrúi í stjórn Svíþjóðardemókrata og formaður aðildarfélags flokksins í Jämtland í Svíþjóð, sagði á spjallborði á netinu að fjöldamorðinginn Anders Breivik væri langt frá því að vera einhver auli. „Það eru nokkrir einstaklingar á Norðurlöndunum sem sagan á eftir að sýna okkur að höfðu rétt fyrir sér,“ á hún að hafa skrifað. Hún lýsti því yfir að hún fordæmdi árásina í Útey, en að það sé ekki hægt að neita því að Breivik sé gáfaður maður. Þau ummæli sem virðast fara mest fyrir brjóst Svía eru þau að hún sagðist vona að ungir pólitískir flóttamenn sem voru í hungurverkfalli myndu deyja úr hungri. 

Sagði ræðu Breiviks hafa innihaldið mikinn sannleik

Í öðrum ummælum sem hún skrifaði á netið á meðan á réttarhöldum Breiviks stóð sagði hún að ræða Breiviks í dómssalnum hafi verið góð og að hún hafi innihaldið mikinn sannleik sem erfitt sé fyrir suma að kyngja. Ummælin sem hún ritaði á umrætt spjallborð voru undir nafnleysi en á spjallborðinu þurfti þó að skrá sig inn með tölvupóstfangi. Sænska dagblaðið Expressen hefur á undanförnum vikum unnið að því að skoða spjallborð, þar sem kynþáttahatur og útlendingahatur viðgengst, og hefur tekist að koma upp um þó nokkra notendur sem eru virkir í stjórnmálaumræðu í Svíþjóð.  Í viðtali við Expressen í kjölfar fréttarinnar um skrif hennar sagði Stensby að hún hafi áhyggjur af áhrifum islams á Svíþjóð og að hún óttist raunverulega að afleiðingarnar geti orðið þriðja heimsstyrjöld. 

Um leið og upp komst um skrifin, dró hún sig frá öllum trúnaðarstöðum innan flokks Svíþjóðardemókrata auk þess sem henni var vikið tímabundið úr starfi sem tónmenntakennara í grunnskóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert