Grænfriðungar hvergi bangnir

„Einum kafla er lokið en ekki sögunni allri. Nú get ég yfirgefið landið og haldið áfram því starfi að vernda Norðurheimskautssvæðið,“ sagði Dmitri Litvinov, aðgerðarsinni hjá Grænfriðungum. Hann er á meðal þeirra 28 Grænfriðunga sem veitt var sakaruppgjöf á dögunum.

Rússnesk yfirvöld hafa fallið frá ákærum á hendur 28 Grænfriðungum sem handteknir voru fyrir að mótmæla olíuvinnslu í Norður-Íshafi, og tveimur blaðamönnum sem fylgt höfðu hópnum. Grænfriðungarnir voru handteknir á olíuborpalli, og voru allir upprunalega ákærðir fyrir spellvirki.

Grænfriðungarnir fengu í dag brottfararleyfi og mega því yfirgefa Rússland. „Þetta var mjög ósanngjarnt allt saman. Og það er nauðsynlegt að fólk átti sig á því að við erum að gera góðverk. Við erum að reyna vernda Norðurheimsskautssvæðið,“ sagði Grænfriðungurinn Mannes Ubels.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert