17 stiga frost í Hell

Kuldamet hafa fallið vítt og breitt í Bandaríkjunum, en mikið frost hefur til að mynda mælst í suðurhluta Bandaríkjanna. Talið er að kuldakastið mikla hafi haft áhrif á líf um 190 milljóna manna.

Fjallað er um þetta á vef breska ríkisútvarpsins. Þar segir m.a. að fangi sem flúði úr fangelsi í Kentucky hafi á endanum gefið sig fram við yfirvöld vegna kuldans. 

Í miðvesturríkjum Bandaríkjanna hefur á stöku stað mælst um 26 stig frost, sem samsvarar hitastiginu við strönd Suðurskautsins að vetrarlagi. Það er jafnframt mun kaldara en hitastigið sem mælist í frysti sem er að finna í venjulegum frystikistum. 

Kuldamet voru slegin í nokkrum ríkjum, m.a. í Alabama, í Georgíu, Tennessee, Arkansas, Michigan, Maryland, Ohio, Pennsylvaníu og New York.

Í smábænum Hell í Michigan mældist t.d. 17 stiga frost. Ekki leið á löngu þar til gárungarnir fóru á stjá á netinu og gerðu m.a grín að því að það væri svo kalt að það hefði jafnvel frosið í helvíti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert