Kerry hvetur til viðræðna

John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvetur stjórnarandstæðinga í Sýrlandi til að taka þátt í viðræðum sem miða að því að mynda nýja stjórn í landinu. Þær viðræður munu fara fram á friðarráðstefnu í Sviss í næstu viku og í yfirlýsingu segir Kerry þátttöku í þeim vera besta tækifæri stjórnarandstæðinga til að ná fram markmiðum sínum.

Þrátt fyrir margra mánaða samningaumleitanir hafa stjórnarandstæðingar, sem eru margir hópar, ekki fengist til viðræðna við fulltrúa ríkisstjórnar Bashar al-Assads forseta landsins. Verði af því nú, verður það í fyrsta skiptið sem fulltrúar þessara aðila koma að samningaborðinu frá því að átök hófust í landinu í mars 2011. 

Meira en 130.000 hafa látið lífið í átökum og mótmælum í landinu á þeim tíma og milljónir eru á vergangi, ýmist í heimalandi sínu eða í nágrannalöndunum.

Margt hefur orðið til þess að flækja ástandið, t.d. hefur fjöldi öfgamanna víðs vegar að úr heiminum flætt yfir landamærin að Sýrlandi til að taka þátt í átökunum. Kerry segist hafa af því þungar áhyggjur og segir Sýrland vera „segulstál“ fyrir íslamska öfgamenn og hryðjuverkamenn.

Ráðstefnan í næstu viku verður haldin í Montreux og síðan færð yfir til Genfar. Búist er við þátttöku fulltrúa frá 35 ríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert