Segir aðrar lækningar betri en fangelsun

Forseti Úganda.
Forseti Úganda. AFP

Forseti Úganda Yoweri Museveni hefur neitað að skrifa undir frumvarp til laga sem samþykkt var á þinginu sem heimilar að dæma fólk í lífstíðarfangelsi fyrir samkynhneigð. Segir hann aðrar leiðir betri til þess að „lækna fólk af afbrigðileika“ sem þessum.

Í bréfi sem forsetinn ritaði þinginu kemur fram það álit forsetans að samkynhneigð orsakist af uppeldi eða peningaþörf. Lesbíur séu með konum þar sem þær séu í kynferðislegu svelti eða hafi ekki náð sér í eiginmann. Museveni segir bestu leiðina til þess að lækna fólk af samkynhneigð vera þá að bæta efnahagsástand landsins. Þetta kemur fram í frétt Daily Monitor.

„Lykilspurningin í umræðunni um samkynhneigð er hvað við gerum við afbrigðilega manneskju? Drepum við hann/hana? Fangelsum við hann/hana? Eða hemjum við hann/hana?“ er haft eftir forsetanum í bréfinu.

„Þrátt fyrir lagasetningu verður samkynhneigð stunduð áfram í ábataskyni en í leynum,“ segir í bréfinu.

Lögin sem banna samkynhneigð voru samþykkt á þinginu í síðasta mánuði eftir að flutningsmenn frumvarpsins samþykktu að taka út heimild til að taka fólk af lífi fyrir samkynhneigð.

Í frumvarpinu er m.a. ákvæði um að dæma megi samkynhneigða í lífstíðarfangelsi í sumum tilvikum, m.a. ef þeir hafa mök við fólk undir lögaldri eða ef þeir hafa smitast af HIV-veirunni.

Í frumvarpinu er einnig ákvæði um að það geti varðað fangelsi að láta hjá líða að kæra þá sem brjóta lögin um bann við samkynhneigð.

Mannréttindasamtök og stjórnmálamenn víða heim, þ. á m. Barack Obama Bandaríkjaforseti, hafa mótmælt frumvarpinu. Til að frumvarpið verði að lögum þarf forseti Úganda að staðfesta það sem hann hefur nú neitað að gera.

Algengt er að samkynhneigt fólk sé ofsótt í Úganda. David Kato, sem barðist fyrir réttindum samkynhneigðra, var barinn til bana á heimili sínu árið 2011 eftir að dagblað birtir myndir og upplýsingar um samkynhneigða Úgandamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert