Afturkölluðu lög gegn mótmælum

Óeirðalögregla stendur viðbúin í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, í morgun.
Óeirðalögregla stendur viðbúin í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, í morgun. EPA

Þing Úkraínu afturkallaði í morgun umdeild lög, sem sett voru fyrir skömmu sem takmarka mjög rétt almennings til mótmæla. Stjórnarandstæðingar segja afsögn Mykola Azarov forsætisráðherra aðeins skref í átt að sigri stjórnarandstæðinga.

Azarov sagði af sér í morgun og sagðist vonast til þess að það yrði til að greiða fyrir friðsamlegu samkomulagi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Forseti landsins, Viktor  Janúkovitsj, hefur enn ekki samþykkt afsögnina.

Skref í átt að sigri

Afsögnin var meðal krafna stjórnarandstæðinga, en þeir krefjast einnig að forsetinn segi af sér og að boðað verði til kosninga í landinu. „Þetta er ekki sigur. En þetta er skref í átt að sigri,“ sagði Vitali Klitschko, fyrrverandi heimsmeistari í þungavigt og einn leiðtogi stjórnarandstæðinga, í morgun. 

Lögin umdeildu voru felld úr gildi með 361 atkvæði gegn tveimur. Þau voru samþykkt 16. janúar síðastliðinn og var þeim ætlað að stemma stigu við mótmælum stjórnarandstæðinga. Þau urðu aftur á móti til þess að mótmæli jukust til muna og harka hljóp í þau.  Samkvæmt lögunum lágu þungar fangelsisrefsingar við mótmælum í opinberum byggingum og við því að hylja andlit sitt við mótmæli.

Frá mótmælum í miðborg Kænugarðs í morgun.
Frá mótmælum í miðborg Kænugarðs í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert