90 milljónum barna bjargað frá dauða

230 milljón börn „ekki til“
230 milljón börn „ekki til“ UNICEF

Með markvissri baráttu gegn barnadauða síðastliðin ár hefur tekist að bjarga 90 milljón börnum frá dauða. Þetta er miðað við að tíðni barnadauða hefði haldist sú sama og árið 1990.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um stöðu barna í heiminum sem út kom í gær. 

Skólasókn í fátækustu ríkjum heims hefur aukist verulega og yfir 80% barna á grunnskólaaldri í þeim löndum hefja nú nám í skóla. Á heimsvísu hafa aldrei fleiri stúlkur stundað nám en nú.

Í skýrslunni kemur fram að gríðarmikill árangur hefur náðst frá því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur árið 1989 og á því tímabili sem unnið hefur verið að Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Dauðsföllum af völdum mislinga hefur sem dæmi fækkað um 82% síðan árið 2000. Mislingar eru bráðsmitandi veirusýking sem er ein helsta dánarorsök barna yngri en fimm ára í heiminum. Þennan árangur má að miklu leyti rekja til aukinna bólusetninga.

Auk þess vekur athygli að markviss inngrip hvað varða næringu barna hafa haft í för með sér 37% lækkun á tíðni vanþroska hjá börnum á heimsvísu á rúmlega tuttugu ára tímabili. Börn sem þjást af langvarandi vannæringu eru oft kölluð vanþroska (e. stunted) en þá er langvarandi skortur á viðeigandi næringu farinn að hafa áhrif á vöxt og þroska barnsins.

Meginþráður skýrslu UNICEF er að hvert einasta barn skipti máli og mikilvægt sé að ná tilallrabarna. Samtökin hvetja til þess að aukinn þungi verði settur í gagnaöflun til að finna þær gloppur sem koma í veg fyrir að börnin sem helst eiga undir högg að sækja í heiminum fái notið réttinda sinna, segir í tilkynningu.

Í skýrslunni kemur fram að 11% stúlkna í heiminum eru giftar fyrir 15 ára aldur. Barnaþrælkun er veruleiki 15% barna í heiminum.  Einnig kemur fram í skýrslunni að bæta þarf fæðingarskráningar enn frekar. Þótt ástandið hafi batnað mikið eru enn 230 milljón börn hvergi skráð og þar með formlega „ekki til“. Með þessu eru þau útsettari fyrir skorti á grunnþjónustu og hvers kyns réttindabrotum, segir ennfremur í tilkynningu.

„Tölfræðigögn eru ekki bara tölur. Þau lýsa veruleika barna um allan heim. Þau sýna okkur hvaðan við komum og hvert beri að stefna. Gagnaöflun er gríðarlega mikilvæg fyrir aukna velferð barna,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

Stefán leggur áherslu á að með áreiðanlegri gagnaöflun sé hægt að þrýsta á um að réttindi allra barna séu virt.

„Þannig drífur starf UNICEF áfram varanlegar umbætur sem breyta heiminum. Við höfum í nær sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn og erum í einstakri stöðu til að hafa áhrif á heimsvísu. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan viðamikillar gagnaöflunar okkar um allt sem tengist börnum heimshornanna á milli.“

Skýrslan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert