Ég er hommi, mamma

Binyavanga Wainaina.
Binyavanga Wainaina. AFP

Keníamaðurinn Binyavanga Wainaina er einn þekktasti rithöfundur Afríku. Í liðnum mánuði ákvað hann að koma út úr skápnum og birti smásögu undir fyrirsögninni „Ég er hommi, mamma“. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa.

Wainaina hefur aldrei legið á skoðunum sínum, en yfirlýsing hans 19. janúar, daginn eftir að hann varð 43 ára, hefur vakið meiri úlfaþyt en nokkur ummæli hans önnur til þessa. Á meðan samkynhneigðir sækja sér aukin réttindi víðast hvar í heiminum hefur staða þeirra versnað víða í Afríku.

Wainaina sagði í viðtali við fréttastofuna AFP að tímasetningin á smásögunni hefði að hluta til ráðist af því að umdeild lög gegn samkynhneigðum voru sett í Nígeríu, landi, sem hann segist virða og líta á sem sitt annað heimili.

Samkynhneigð víða bönnuð

Samkvæmt hinum nýju lögum, sem tóku gildi þegar Goodluck Jonathan, forseti Nígeríu, undirritaði þau 7. janúar, varðar allt að 14 ára fangelsi að samkynhneigðir staðfesti sambúð sína með viðhöfn. Sú refsing á við í þeim ríkjum, sem fylgja breskum réttarfarsreglum, sem enn eru við lýði frá nýlendutímanum. Í sumum ríkjum gildir íslamskt réttarfar og þar varðar „sódómía“ dauðarefsingu.

„Ekkert land í heiminum býr yfir jafnmikilli fjölbreytni, sjálfstrausti, hæfileikum og svörtu stolti og Nígería,“ sagði Wainaina í viðtalinu og bætti við að lögin gegn hjónabandi samkynhneigðra væru „okkur öllum til skammar“.

Samkynhneigð er bönnuð í Úganda eins og í flestum ríkjum Afríku. Í janúar sendi Yoweri Museweni, forseti Úganda, þingmönnum bréf þar sem hann sagðist efast um að frumvarp sem þingið samþykkti fyrir jól um lífstíðarfangelsi við samkynhneigð, væri rétta leiðin. Um leið gaf hann þó til kynna að samkynhneigð væri afleiðing erfðafræðilegs galla eða þörfinni til að afla sér viðurværis.

Í Kenía er samkynhneigð bönnuð samkvæmt lögum, en þeim er sjaldan framfylgt.

Wainaina fékk Caine-verðlaunin, sem veitt eru afrískum höfundum, árið 2002. Árið 2011 gaf hann út endurminningar sínar undir heitinu „Dag einn mun ég skrifa um þennan stað“ og hlaut mikið lof fyrir. Hann hefur sagt að margir lesendur hans, einkum konur, hafi haft orð á að lítið færi fyrir ástarlífi hans í bókinni. Þá hafði hann sagt trúnaðarvinum frá samkynhneigð sinni, en fannst hann ekki tilbúinn til að fjalla um þau mál opinberlega. Undanfarna mánuði hefur hann hins vegar verið að velta fyrir sér hvernig hann ætti að greina frá því að hann væri hommi og ákvað á endanum að gera það í smásögu, sem hann hugsar sem týndan kafla úr endurminningunum og stílar á móður sína.

„Ég, Binyavanga Wainaina, sver einlæglega að ég hef vitað að ég væri samkynhneigður frá því ég var fimm ára,“ skrifar hann.

Í kaflanum fer Wainaina á milli ímyndunar og veruleika. Hann bjó í Suður-Afríku þegar móðir hans dó og var því fjarverandi þegar hún dó. Í kaflanum ímyndar hann sér að hann sé við dánarbeð hennar og segi henni frá kynhneigð sinni. Hún lést árið 2000 í Kenía þegar Wainaina var þrítugur. Hann kveðst aldrei hafa snert karlmann kynferðislega, en sofið hjá þremur konum á ævi sinni. „Með einni konu tókst það. Aðeins einu sinni með henni. Það var stórkostlegt. En næsta dag gat ég ekki aftur,“ skrifar hann og bætir við síðar: „Ég get ekki sagt orðið hommi fyrr en ég er orðinn 39 ára... Í dag er 18. janúar 2013 og ég er 43 ára.“

Óttinn arfleifð nýlendutíma?

Wainaina fylgdi birtingu sögunnar eftir með heimildarmynd, sem var sett á netið 22. janúar. Myndin heitir „Það sem ég hef að segja um að vera samkynhneigður“. „Ég held að Afríka sé á uppleið með skapandi hætti, en að henni steðji hætta frá púrítönum,“ segir hann þar. Wainaina er þeirrar hyggju að óttinn í Afríku við samkynhneigð helgist af skorti á ímyndunarafli og timburmönnum frá menntakerfi, sem nýlenduherrar hafi innleitt til að búa til skriffinna, en ekki hugsuði. Þetta viktoríanska menntakerfi sé enn við lýði og móti siðferði afrískrar millistéttar.

Wainaina segir að margir hafi hvatt sig til dáða á samfélagsvefjum eftir að hann greindi frá samkynhneigð sinni og tekur dæmi. „Vinur minn einn úr menntaskóla, sem ég hef hvorki séð né rætt við árum saman, sendi mér einkaskilaboð: „Nú er ég lögga þannig að ef þig vantar hjálp skaltu hringja í mig.““

Keníski rithöfundurinn Binyavanga Wainaina.
Keníski rithöfundurinn Binyavanga Wainaina. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert