Fann leikföng Önnu Frank

Anna Frank
Anna Frank Reuters

Skömmu áður en Anna Frank fór í felur ásamt fjölskyldu sinni gaf hún vinkonu sinni nokkur leikfanga sinna og bað hana að varðveita þau. Þetta var kúluspil úr tini, bollar og undirskálar og bók.

Anna lék reglulega við vinkonuna, Toosje Kupers, á götum Amsterdam og treysti henni fyrir  leikföngum sínum. Anna fór í felur með fjölskyldu sinni og dvaldi næstu 25 mánuðina í þröngri íbúð í skrifstofubyggingu föður síns. Sögu hennar má lesa í dagbók Önnu Frank, sem byggð var á dagbókum stúlkunnar. Anna lét lífið í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni.

Nú, um sjötíu árum síðar, hafa leikföngin litið dagsins ljós og verða fljótlega til sýnis í Rotterdam.

Kupers, vinkona Önnu, reyndi að koma leikföngunum til föður Önnu, Ottos Franks, eftir að stríðinu lauk. Hún fékk aftur á móti þau skilaboð að hún mætti halda leikföngunum. Fyrir rúmu ári flutti Kupers og þá komu leikföngin í ljós. Kúluspilið fannst uppi á háalofti ásamt hinum leikföngunum.

Kúluspilið verður til sýnis ásamt 99 öðrum hlutum frá seinni heimsstyrjöldinni.

CNN greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert