11 látnir í Bangui eftir átök helgarinnar

Vígamaður í Bangui heldur hnífi að hálsi sér.
Vígamaður í Bangui heldur hnífi að hálsi sér. ISSOUF SANOGO

Að minnsta kosti ellefu eru látnir eftir hörð átök um helgina í Bangui, höfuðborg Mið-Afríkulýðveldisins. Þar á meðal eru tveir múslimar sem voru teknir af lífi af æstum múg og þingmaður sem var skotinn af mótorhjóli á ferð. 

Átökin hófust á laugardaginn í vesturhluta Bangui þar sem kristnir sjálfskipaðir lögverðir tókust á við múslima. Borinn var eldur að mörgum byggingum. Múslimi sem hafði myrt kristna konu var tekinn af lífi án dóms og laga. Lík hans var brennt og fleygt á tröppur ráðhússins um nóttina þar sem það fannst morguninn eftir. 

Um líkt leyti skaut kristinn maður annan múslima og hugðist hann brenna líkið þegar hermenn frá Rúanda komu þar að. Skutu þeir manninn til bana. Leiddi það til þess að hópur manna mótmælti veru hermannanna í landinu. Fimm aðrir féllu en ekki er vitað um tildrög þess. Peter Bouckaert, talsmaður Human Rights Watch, staðfesti frásagnir vitna af atburðunum. 

Jean-Emmanuel Ndjaroua, þingmaður fyrir Haute Kotto-hérað í suðausturhluta landsins, var myrtur á sunnudaginn þegar menn á mótorhjóli skutu á hann á ferð. Ndjaroua hafði þá talað gegn ofbeldi gegn íslömskum íbúum kjördæmis síns. 

Landið, sem er fyrrverandi frönsk nýlenda, hefur verið vettvangur mikilla átaka síðan Michel Djotodia var gerður að forseta landsins í mars á síðasta ári eftir stjórnarbyltingu. Eftir að Djotodia sagði af sér stóðu vonir manna til að ofbeldinu myndi linna. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert