Fjöldahandtökur í kynlífsborginni

Kínverska borgin Dongguan er kynlífsborg landsins ef marka má heimildarmynd sem  sýnd var í kínverska ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldið. Svo virðist sem yfirvöldum hafi orðið mikið um myndina því yfir sex þúsund lögreglumenn tóku þátt í aðgerðum gegn kynlífsiðnaðinum í borginni í gærkvöldi og nótt.

Alls voru 67 handteknir en leitað var á hundruðum hótela, gufuböðum og karókíbörum í borginni, sem er í Guangdong-héraði. Alls var tólf stöðum lokað og tveir yfirmenn í lögreglunni reknir frá störfum.

Í þætti CCTV-sjónvarpsstöðvarinnar var flett ofan af vændisiðnaðinum í Dongguan, iðnaðarborg þar sem talið er að einn af hverjum tíu farandverkamönnum borgarinnar vinni við kynlífsiðnaðinn.

Þáttagerðarfólkið notaði faldar myndavélar við gerð þáttarins en í honum var sýnt hvar ungar konur stóðu í röð í herbergjum eða á sviði og fréttamaðurinn fékk upplýsingar um verðmiðann á þeim. Í þættinum sést þegar fréttamaðurinn hringir í lögregluna til að tilkynna vændið, án árangurs.

Í myndinni spyr fréttamaðurinn starfsmann í vændishúsi hvort lögreglan muni koma en hann er fullvissaður um að það sé ekki nokkur einasta hætta á því.

Þótt yfirvöld hafi brugðist strax við þættinum, en vinna við hann tók þrjá mánuði, eru netverjar ósáttir við þáttinn. Telja þeir að allt of mikið sé einblínt á að gera lítið úr þeim konum sem starfa við kynlífsiðnaðinn í stað þess að einbeita sér að rót vandans; hvað valdi því að konurnar endi við þessar aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert