Hætti að telja eftir 22 morð

Mynd úr safni
Mynd úr safni EPA
Nítján ára gömul kona sem situr í gæsluvarðhaldi í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum játar í blaðaviðtali að hún hafi framið tugi morða. Hún segist hafa hætt að telja eftir að hafa framið 22 morð.
Miranda Barbour er ákærð fyrir morð á manni á fimmtugsaldri sem hún kynntist í gegnum smáauglýsingavefinn Craiglist.
Dagblaðið Daily Item tók við hana símaviðtal og þar segist Barbour hafa myrt fólkið í Alaska, Texas, Norður-Karólínu og Kaliforníu á undanförnum sex árum. Bandaríska alríkislögreglan rannsakar nú fullyrðingar hennar í samstarfi við lögregluna í viðkomandi ríkjum.
Barbour, sem er einnig sökuð um að tilheyra hópi djöfladýrkenda, játar að stungið Troy LaFerrara til bana í Port Trevorton þann 11. nóvember í viðtalinu. Í desember neitaði hún og eiginmaður hennar Elytte Barbour, 22 ára, að hafa myrt Troy LaFerrara en eiginmaður hennar situr einnig í gæsluvarðhaldi. Saksóknari mun fara fram á dauðarefsingu yfir þeim báðum.

Í viðtalinu kemur fram að Barbour hafi boðist til þess að aðstoða lögregluna við að finna lík fórnarlamba sinna. Barbour segir í viðtalinu að hún hafi samþykkt að hafa kynmök við LaFerrara gegn 100 Bandaríkjadala greiðslu en hún kynntist honum í gegnum auglýsingu á Craiglist. Eftir að hafa hitt hann á bílastæði hafi allt farið úr böndunum. Hún hafi ekki ætlað að stinga hann til bana heldur hafi eiginmaður hennar ætlað að kyrkja hann en alls voru 20 stungusár á líkama hans, samkvæmt gögnum saksóknara.

Að hennar sögn var hún beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu frænda síns er hún var fjögurra ára gömul. Níu árum síðar hefði hún gengið til liðs við djöfladýrkendur í Alaska og fljótlega hafi hún framið fyrsta morðið eða þegar hún var þrettán ára gömul.

Flest morðin voru framin í Alaska og hún segist ekki sjá eftir þeim og myndi hiklaust myrða á ný.

Móðir hennar staðfestir við Daily Item að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi þegar hún var fjögurra ára gömul og að frændinn hafi verið dæmdur í fjórtán ára fangelsi.

Umfjöllun Independent

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert