Meðlimum Pussy Riot sleppt úr haldi

Meðlimir Pussy Riot í dag.
Meðlimir Pussy Riot í dag. ANDREJ ISAKOVIC

Nadezhdu Tolokonnikovu og Mariu Alyokhinu, liðskonum rússnesku pönksveitarinnar Pussy Riot, hefur verið sleppt úr haldi. Þær, ásamt sjö öðrum, voru handteknar nálægt miðborg Sotsjí fyrr í dag.

Þær voru að sögn handteknar þrisvar sinnum í Sotsjí, á jafn mörgum dögum. Eins og margir muna eflaust voru þær stöllur látnar lausar í lok desember á síðasta ári og sögðu af því tilefni að sakaruppgjöfin væri ekkert annað en áróðursbragð stjórnvalda sem vildu fegra ásýnd sína fyrir vetrarólympíuleikana í Sotsjí, að því er segir í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International.

Samkvæmt Tolokonnikovu ásökuðu rússnesk stjórnvöld þær um að vera viðriðnar þjófnað á hóteli sem þær dvöldu á í Sotsjí. Hún segir raunverulega ástæðu handtökunnar vera tónlistarmyndband sem þær höfðu í hyggju að framleiða og ber titilinn, „Pútín mun kenna þér hvernig á að elska föðurlandið“.

Í Rússlandi Pútíns hafa yfirvöld breytt tákni ólympíuhringanna - alheimstákni um von og sóknina eftir því besta í mannsandanum- í fjötra tjáningarfrelsisins, eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

Aðgerðir stjórnvalda svívirðilegar

Að sögn Amnesty International eru aðgerðir stjórnvalda svívirðilegar. Samtökunum berast fregnir af daglegum handtökum aðgerðasinna í Sotjsí og á svæðinu í grennd við ólympíuleikana. Fólk er handtekið fyrir það eitt að tjá hug sinn friðsamlega. Rússnesk yfirvöld verða að binda enda á aukin og stigvaxandi mannréttindabrot í grennd við ólympíuleikana.

Meðal annarra sem handteknir voru 16. febrúar síðastliðinn voru Semyon Simonov sem er meðlimur í mannréttindamiðstöðinni Memorial, blaðamaður á útvarpsstöðinni Frjáls Evrópa og aðgerðasinninn David Hakim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert