Umburðarlyndi að slátra ekki hommum

„Sagt er að við eigum að sýna umburðarlyndi og afbera þessa hegðun. En við erum umburðarlynd. Við erum ekki að slátra þeim,“ segir Simon Lokodo, ráðherra siðferðis og ráðvendni í Úganda, um stefnu stjórnvalda í málefnum samkynhneigðra. Hann segist vilja hjálpa samkynhneigðum sem séu eins og fíklar.

Lokodo tjáði sig um málið í kjölfar þess að forsetinn, Yoweri Museveni, tilkynnti að hann myndi undirrita umdeild lög, sem meðal annars mæla fyrir um lífstíðarfangelsi verði fólk uppvíst að samkynhneigð. „Við segjum, að verði einhver uppvís að þessum andstyggðar verknaði verði viðkomandi að gangast undir ítarlega skoðun og tekinn úr umferð.“

Embættismenn tilkynntu einnig í dag að Museveni hefði í síðustu viku undirritað löggjöf gegn klámi og löggjöf um klæðaburð, sem bannar m.a. „ögrandi“ fatnað og fáklætt fólk í úgöndsku sjónvarpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert