Hraustur sem níu ára drengur

Þúsundir komu saman í dag til þess að fagna 90 ára afmæli Róberts Múgabe, forseta Simbabve, sem verið hefur við völd í 34 ár. Óhætt er að segja að Múgabe hafi leikið á als oddi en forsetinn gerði sér lítið fyrir og kastaði á loft 90 blöðrum, einni blöðru fyrir hvert aldursár. 

Múgabe er nýsnúinn heim frá Singapúr en þangað hélt hann í síðustu viku til þess að gangast undir aðgerð á auga. Var hann því fjarri heimahögum á afmælinu en Róbert Múgabe er fæddur 21. febrúar 1924 í Suður-Ródesíu. 

Skömmu áður en forsetinn skar afmælistertuna hélt hann ávarp fyrir viðstadda. Kom hann meðal annars inn á heilsufar sitt og sagðist forsetinn vera jafn heilsuhraustur og orkumikill og níu ára drengur. 

Viðstöddum gafst gott færi á að bera Múgabe augum en hann kom sér fyrir á palli aftan á bifreið sem ók honum um svæðið. Þaðan gat forsetinn veifað til almennings, sem að mestu samanstóð af ungum skólakrökkum sem keyrðir höfðu verið á samkomuna í rútubílum. 

Meðal þeirra sem skiluðu afmæliskveðjum frá þjóðarleiðtogum sínum voru sendiherrar Kína og Rússlands. Líkt og í öllum veislum var viðstöddum boðið upp á ýmsar kræsingar. Voru meðal annars fimm stórar tertur á boðstólum og vó ein þeirra alls 90 kíló. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert