Stálu sjö tonna mangó

Stóra mangóið er, jú, stórt. Tíu metrar á hæð og …
Stóra mangóið er, jú, stórt. Tíu metrar á hæð og sjö tonn á þyngd. Það þarf fífldirfsku og einbreittan brotavilja til að fjarlægja ferlíkið í heimildarleysi á næturlagi. mynd/Wikipedia

Lögreglan í Ástralíu leitar nú þjófa sem gerðu sér lítið fyrir og stálu 10 metra háum minnisvarða sem lítur út eins og risastór mangóávöxtur og vegur hvorki meira né minna en sjö tonn. Þess bera að geta að þjófarnir notuðu stórvirkar vinnuvélar við verknaðinn í skjóli nætur.

Minnisvarðinn, sem heitir því viðeigandi nafni The Big Mango, stóð í Bowen í Queensland. Hann er einn af 150 stórum minnisvörðum sem hafa verið reistir til að vekja athygli og furðu ferðamanna vítt og breitt um Ástralíu. M.a. stór banani og jarðarber. Einnig er að finna stóra fiska, humar og kengúru, svo nokkur dæmi séu nefnd. 

Hulunni var svipt af ávextinum árið 2002. Að sögn Pauls McLaughlins, formanns ferðamálaráðs í Bowen, var minnismerkið fjarlægt í nótt. 

„Þetta lítur út fyrir að vera einhvers konar tvö-að-nóttu-verknaður. Stórvirkum vinnuvélum var beitt og það lítur út fyrir að þeir hafi tekið mangóið,“ sagði McLaughlin í samtali við ástralska ríkisútvarpið.

Hann hélt í fyrstu að verið væri að gera at í sér þegar hann frétti af þjófnaðinum. Annað kom á daginn.

McLaughlin segir ennfremur að eftirlitsmyndavélar séu á svæðinu og kveðst hann fullviss um ávöxturinn komi í leitirnar.

„Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er þetta fjandi stórt mangó og ég er viss um að einhver mun taka eftir því og við finnum það,“ sagði hann í samtali við Brisbane Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert