Hótar að beita viðskiptaþvingunum

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. CHIP SOMODEVILLA

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmir hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu og hótar að beita rússnesk stjórnvöld viðskiptaþvingunum. Hann sagði að framkoma Rússa væri í líkingu við framkomu ríkja á 19. öldinni, að því er segir í frétt CBS. Svona hegðuðu ríki sér ekki á 21. öldinni.

Hann sagði að Bandaríkin, sem og önnur G8 ríki, myndu íhuga það að einangra Rússa í alþjóðlegum viðskiptum og frysta eignir rússneskra ráðamanna.

Kerry benti á að það væri engum í hag að grípa til vopna við núverandi aðstæður. Finna þyrfti friðsamlega lausn á málinu. Hann fordæmdi jafnframt harðlega þá ákvörðun Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, að óska eftir heimild rússneska þingsins fyrir því að beita vopnuðum hersveitum í Úkraínu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur áður sagt að það brjóti í bága við alþjóðleg lög.

Kerry sagði enn fremur að Rússar ættu í hættu á að missa stöðu sína innan G8 vegna framgöngu sinnar. „Ef Rússland ætlar að vera G8-land þarf það að hegða sér eins og G8-land,“ sagði hann.

Ekkert lát er á mótmælum í nokkrum borgum í Úkraínu og Rússlandi. Í Moskvu, höfuðborg Rússlands, eru yfir tíu þúsund manns samankomnir en flestir þeirra eru stuðningsmenn Pútíns. Mótmælin fara að mestu friðsamlega fram. Einnig er mótmælt í Sankti Pétursborg en nokkrir mótmælendur hafa verið handteknir í átökum.

Í Varsjá, höfuðborg Póllands, mótmæla vel yfir þúsund manns aðgerðum rússneskra stjórnvalda.

Frá Sankti Pétursborg í Rússlandi í dag.
Frá Sankti Pétursborg í Rússlandi í dag. OLGA MALTSEVA
ANATOLII STEPANOV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert