Fordæmdi hernaðarbrölt Rússa

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmir hernaðarbrölt Rússa í Úkraínu og segir að framganga rússneskra stjórnvalda brjóti í bága við alþjóðalög. Hann kom til Úkraínu í dag og hélt blaðamannafund í Kænugarði á fimmta tímanum.

Hann sagði að Bandaríkin myndu aðstoða Úkraínumenn eins og mögulegt væri. Mikilvægt væri að koma á efnahagslegum og pólitískum stöðugleika í landinu sem allra fyrst. Fyrr í dag tilkynnti hann úkraínskum stjórnvöldum að Bandaríkin ætluðu að veita þeim lán upp á einn milljarð Bandaríkjadala, jafnvirði um 112 milljarða íslenskra króna.

Kerry hótaði jafnframt að beita Rússa refsiaðgerðum, svo sem viðskiptaþvingunum, ef þeir héldu hótunum sínum áfram.

Hann fundaði með Oleksander Turchynov, settum forseta Úkraínu, og öðrum háttsettum ráðamönnum. Áður kom hann þó við á Sjálfstæðistorginu til að minnast allra þeirra sem látið hafa lífið í átökum mótmælenda og lögreglu undanfarna mánuði.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, undirstrikaði það í ræðu í skólaheimsókn í Washingtonborg í dag að Rússar væru, með framferði sínu, að brjóta alþjóðalög. Flestöll Vesturlönd væru þar á einu máli. „Svo virðist sem Pútín hafi aðra lögfræðinga, kannski aðra túlkara, en hann blekkir ekki neinn,“ sagði Obama.

Pútín Rússlandsforseti hefur margoft sagt að Rússar séu í fullum rétti til að vernda hagsmuni sína og rússneskumælandi íbúa á Krímskaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert