Aukið samstarf NATO og Úkraínu

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagið.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagið. GEORGES GOBET

Atlantshafsbandalagið hyggst auka samstarf sitt við Úkraínumenn til þess að styðja við lýðræðislegar umbætur þar í landi. Á sama tíma verður farið yfir alla samvinnu sem bandalagið á í við Rússa, þar með talið samstarf um eyðingu sýrlenskra efnavopna. Þetta kom fram í máli Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra bandalagsins fyrr í kvöld. 

Rasmussen ræddi í dag við sendiherra Rússa hjá Atlantshafsbandalaginu. Eftir fundinn sagði hann að bandalagið hygðist auka samskipti sín við bæði borgaralega og hernaðarlega forystu Úkraínu. Meðal annars yrðu haldnar fleiri sameiginlegar heræfingar. 

Rasmussen sagði að ástandið í Úkraínu hefði í för með sér alvarlegar vísbendingar um stöðu öryggis og stöðugleika í þessum heimshluta, og að Rússland héldi áfram að „brjóta gegn“ fullveldi Úkraínu og landamærum þess.

Í máli Rasmussens kom fram að bandalagið hygðist hætta við fyrsta sameiginlega verkefnið með Rússum, fylgd með bandaríska skipinu Cape Ray, sem á að eyða sýrlenskum efnavopnum. Rasmussen lagði áherslu á að eyðing vopnanna myndi fara fram þó að þetta væri gert.

Þá hefur bandalagið frestað um einhvern tíma öllum fundum með borgaralegum og hernaðarlegum fulltrúum Rússlands, en utanríkisráðherrar bandalagsins muni ákveða um framhaldið í byrjun apríl. „Þessi skref senda skýr skilaboð: aðgerðir Rússa hafa afleiðingar.“

Bandalagið mun hins vegar ekki loka á pólitísk samskipti, og sendiherrar ríkjanna munu því áfram geta ræðst saman í NATO-Rússlandsráðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert