Hvar er malasíska farþegavélin?

Enginn virðist vita hvar farþegaflugvélin malasíska er niðurkomin.
Enginn virðist vita hvar farþegaflugvélin malasíska er niðurkomin. AFP

Enn hefur ekkert spurst til farþegaflugvélarinnar sem hvarf sporlaust á leið sinni frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína fyrir rúmum tveimur sólarhringum. Eftir að fréttir bárust af því eftir hádegi í dag að víetnömsku leitarvélarnar, sem komu auga á brak í sjónum sem hugsanlega er talið vera hurð úr flugvélinni, hefðu snúið til baka að landi og tilkynnt var að leit héldi áfram í fyrramálið hafa ekki margar fréttir af málinu ratað í fjölmiðla.

Hvað varð til þess að flugvélin hvarf af ratsjá síðastliðinn föstudag og af hverju skilaði vélin sér ekki til Peking? Var vélinni snúið við? Hvar er hún núna? Þetta eru spurningar sem brenna á vörum fólks víða um heim. Eitt liggur þó fyrir: ættingjum farþeganna hefur verið sagt að búa sig undir það versta.

Gæti hafa sprungið í háloftunum

Farþegavél flugfélagsins Malaysia Airlines af gerðinni Boeing 777-200 hvarf af ratsjám á sjöunda tímanum á föstudagskvöld. Þotan átti að lenda í Peking klukkan hálfellefu í gærkvöldi. Allt samband við flugvélina rofnaði þegar hún flaug yfir Suður-Kínahaf, en þá var hún að nálgast lögsögu Víetnams í 35 þúsund feta hæð. Um borð eru 227 farþegar frá fjórtán þjóðlöndum og tólf í áhöfn.

Í frétt Reuters India kom fram að líklega hefðu björgunar- og leitarflokkar þegar fundið brak úr vélinni ef hún hefði brotlent í heilu lagi á sjónum og hefur rannsóknin meðal annars beinst að því hvort vélin hafi sprungið í háloftunum.

Flugher Malasíu hefur greint frá því að vélinni hafi mögulega verið snúið við og flogið í átt að Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, þaðan sem hún var að koma.

Hverjir eru mennirnir?

Stjórnvöld í Malasíu hafa til sérstakrar skoðunar fimm menn sem áttu pantað far með farþegavélinni en þeir skiluðu sér ekki um borð. Einnig hefur komið í ljós að tveir sem voru á farþegalista vélarinnar, Austurríkismaður og Ítali, voru ekki um borð í henni. Vegabréfum þeirra beggja hafði verið stolið í Taílandi.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins keyptu mennirnir með stolnu vegabréfin far til Peking saman og áttu síðan bókað far með kínversku flugfélagi til Evrópu í gær. Annar til Kaupmannahafnar og hinn til Frankfurt. Unnið er að rannsókn á upptökum öryggismyndavéla af farþegunum tveimur. 

Aðstandendur farþeganna hafa verið beðnir um að búa sig undir …
Aðstandendur farþeganna hafa verið beðnir um að búa sig undir það versta. AFP
Víðtæk leit hefur staðið yfir um helgina að farþegavélinni.
Víðtæk leit hefur staðið yfir um helgina að farþegavélinni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert