Snýst um pólitík, ekki kyn

Eitt helsta kennileiti Parísar, Eiffel turninn
Eitt helsta kennileiti Parísar, Eiffel turninn AFP

Það er ljóst að næsti borgarstjóri Parísar verður kona. Þetta er kannski eitthvað sem Íslendingum þykir ekki merkilegt enda meira en hálf öld liðin frá því kona tók fyrst við starfi borgarstjóra í Reykjavík. Fyrst íslenskra kvenna til að verða borgarstjóri var Auður Auðuns sem varð borgarstjóri árið 1959 og gegndi því starfi í tæpt ár.

En í Frakklandi hefur það aldrei gerst að borgarstjóri höfuðborgar landsins sé kona, ekkert frekar en í Bretlandi, Japan, Þýskalandi eða Brasilíu svo fáein lönd séu nefnd til sögunnar.

Eina hlutverk kvenna að framleiða börn

Eitt er víst að Napoleon Bonaparte mun snúa sér við í gröfinni í lok mars að afloknum borgarstjórakosningum í París. En eins og frægt er þá lét þessi fyrrverandi leiðtogi Frakka þau orð falla að hlutverk kvenna væri eitt: að framleiða börn.

Það er hins vegar ólíklegt að þær Anne Hidalgo, núverandi aðstoðarborgarstjóri og frambjóðandi Sósíalistaflokksins og Nathalie Kosciusko-Morizet, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy og frambjóðandi hægriflokksins UMP, láti þessi ummæli Napoleons hafa nokkur áhrif á sig. Enda snýst valið um pólitík, ekki kyn.

Sandrine Leveue, stjórnmálafræðiprófessor við Sorbonne háskóla í París, segir í samtali við Forbes að með því að kona verði borgarstjóri skapist ákveðin ímynd af borginni. Enda sé borgarstjórinn andlit borgarinnar út á við.

Breskir og bandarískir fjölmiðlar hafa talsvert skrifað um breytt landslag í pólitík Parísarborgar og hafa jafnvel gengið svo langt að segja að þetta sé í fyrsta skipti í tvö þúsund ár sem kona stýrir Parísarborg. Ekki er það nú alveg rétt hjá þeim þar sem París eignaðist sinn fyrsta borgarstjóra í frönsku byltingunni, eða nánar tiltekið daginn eftir Bastilludaginn. Því á Bastilludaginn, þann 14. júlí 1789 var yfirmaður kaupmanna sem réðu lögum og lofum í París skotinn á tröppum ráðhússins í París. Það þýðir að fyrsti borgarstjórinn var kjörinn fyrir 225 árum ekki 2000.

Í dag er sósíalistinn Bertrand Delanoë borgarstjóri í París en hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2001. Hann gefur ekki kost á sér til endurkjörs en fyrri umferð borgarstjórnarkosninganna fer fram þann 23. mars, sama dag og sveitarstjórnarkosningar fara fram annars staðar í landinu. 30. mars er síðan seinni umferðin en þá er kosið milli þeirra tveggja frambjóðenda sem fá flest atkvæði í fyrri umferðinni. Talið er nánast öruggt að það verði þær Hidalgo og Kosciusko-Morizet sem keppi um hylli kjósenda enda flokkar þeirra stærstu flokkarnir í Frakklandi.

Það er eftir töluverðu að slægjast að stýra tuttugu hverfum höfuðborgar Frakklands enda þykir starf borgarstjóra Parísar koma næst embætti forsetans. Ef horft er um öxl sést að borgarstjórastóllinn hefur oft verið stökkpallur þeirra sem síðar sækjast eftir því að flytja inn í forsetahöllina (Élysée-höll). Jacques Chirac var meðal annars borgarstjóri frá 1977 til 1995 er hann tók við embætti forseta.

En hvaða konur eru þetta sem sækjast eftir starfi borgarstjóra?

Frambjóðandi sósíalista, Anne Hidalgo, er 54 ára að aldri, fædd 19. júní árið 1959. Hún er fædd í San Fernando í Andalúsíu á Spáni. Afi hennar flúði til Frakklands með fjölskyldu sína við lok spænsku borgarastyrjaldarinnar en snéri aftur til Spánar. Kona hans lifði það hins vegar ekki að snúa heim aftur og afi hennar, sem var sósíalisti, var dæmdur til dauða við komuna til Spánar. Dómnum var síðar breytt í lífstíðarfangelsi. Faðir Anne flutti til Frakklands ásamt fjölskyldu, eiginkonu og tveimur dætrum Anne og Marie, árið 1961 og settist fjölskyldan að í úthverfi Lyon, Vaise, þar sem Anne Hidalgo ólst upp í tvítyngdu umhverfi þar sem hún og Marie töluðu saman frönsku en spænsku við foreldra sína. Foreldrar hennar búa nú á Spáni en Marie býr í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Alltaf í skugga Delanoë

Hidalgo, sem er félagsfræðingur að mennt, hefur starfað með sósíalistaflokknum lengi og komið að borgarmálum allt frá því Delanoë tók við starfi borgarstjóra fyrir þrettán árum og er stundum nefnd krónprinsessan. Er nú talið að það sé einn af hennar akkilesarhælum hversu vinsæll borgarstjóri hann er því hún hefur alla tíð staðið í skugga hans og fáir þekkja til hennar verka. Það er hins vegar til mikils að vinna fyrir forseta Frakklands, sósíalistann François Hollande, sem er sennilega óvinsælasti forseti sem landið hefur átt. Ef baráttan um París tapast er illt í efni þegar jafnvel íbúar höfuðborgarinnar hafa snúið baki við flokknum.

Fyrrverandi umhverfisráðherra

Hennar helsti keppinautur, Nathalie Geneviève Marie Kosciusko-Morizet, sem er yfirleitt kölluð NKM, er frambjóðandi UMP hægriflokksins. NKM, sem er menntaður verkfræðingur, er fædd þann 14. maí 1973 og er því fertug að aldri. Hún er nú borgarstjóri í Longjumeua, sem er eitt úthverfa Parísar en var áður umhverfisráðherra í ríkisstjórn François Fillon en lét af því starfi árið 2012 til þess að stýra baráttu Nicolas Sarkozy fyrir endurkjöri sem forseti Frakklands.

NKM er af pólskum ættum og á sér djúpar pólitískar rætur en hún var sjálf fyrst kjörin á þing 29 ára gömul. Afi hennar var sendiherra Frakklands í Bandaríkjunum á sínum tíma og faðir hennar tók einnig þátt í stjórnmálum. Eiginmaður hennar, Jean-Pierre Philippe, tengist líka franskri pólitík en ekki sama flokki og hún því hann hefur starfað lengi með sósíalistum. Jean-Marc Germain, eiginmaður Hidalgo, er einnig starfandi í stjórnmálum en hann hefur meðal annars unnið náið með fyrrverandi formanni Sósíalistaflokksins, Martine Aubry.

NKM hefur vakið athygli fyrir klæðaburð sem þykir ekki sá ódýrasti í bænum en hún hefur sterk tengsl inn í yfirstéttina í París. Franska vikuritið Le Point benti á það árið 2012 að hún gengi í Hermés leðurstígvélum sem kostuðu 1.700 evrur á þeim tíma. Hún var nýverið spurð að því í viðtali hvort hún gengi enn í stígvélunum og svaraði hún að bragði: Auðvitað, ég hendi þeim ekki – er ekki í lagi með þig?

Fatnaður, snyrting og hárgreiðsla helsta umræðuefnið

Undanfarið hefur verið tekið eftir því að fatastíll hennar er að verða rokkaðri. Eins hafa fjölmiðlar fjallað mikið um hárgreiðslu hennar og snyrtingu líkt og hjá keppinaut hennar, Anne Hidalgo. Nokkuð sem ekki hefur verið áberandi í umfjöllun franskra fjölmiðla þegar karlar eru í framboði.

En þrátt fyrir að vera ólíkar um margt stefna þær báðar að sama markmiði – að koma París aftur á kortið sem heimsborg. Að borgin höfði til ungra frumkvöðla, meðal annars á hátæknisviðinu. NKM hefur meðal annars reynt að höfða til ungra Parísarbúa sem í dag velja að búa í Lundúnum eða Berlín fremur en París. Hún telur að það sé nær fyrir evrópskar borgir að standa saman og mynda heild í baráttunni við að halda ungu framúrskarandi fólki í álfunni í samkeppninni við Peking og aðrar stórborgir í Asíu.

Græn gildi ofarlega á stefnuskránni

Þær eru báðar áhugasamar um að auka græn gildi í borginni og hafa báðar lýst því yfir að skattar verði ekki hækkaðir í París ef þær ná kjöri.

Madani Cheurfa, stjórnmálaskýrandi hjá Cevipof rannsóknarsetrinu segir í samtali við breska dagblaðið Guardian um síðustu helgi að hann telji að lítill áhugi sé á kosningunum meðal Parísarbúa enda ríki almennur pólitískur doði meðal almennings í Frakklandi þrátt fyrir að einungis séu nokkrar vikur í sveitarstjórnarkosningar.

Samsetning Parísarbúa er töluvert frábrugðin því sem gengur og gerist annars staðar í landinu. 41,7% Parísarbúa hafa lokið langskólanámi en hlutfallið fyrir landið í heild er 12%. Eins búa 51,3% Parísarbúa einir en landsmeðaltalið er 33%. Cherurfa segir að íbúar Parísar hafi yfirleitt mun meiri áhuga á stjórnmálum heldur en aðrir landsmenn en lítill munur sé á milli tveggja helstu frambjóðendanna.

Áherslur þeirra séu svipaðar enda allir sammála um að það verði að berjast gegn atvinnuleysinu, aðstoða heimilislausa og berjast við krabbamein. „Það er eins og að segja að stríð sé af hinu vonda. Það eru allir sammála því séu þeir spurðir.“

Eins eru allir sammála um að gera þurfi úrbætur á húsnæðismarkaðnum og samgöngumálum borgarinnar. Tvö síðastnefndu atriðin séu þau atriði sem skipti borgarbúa mestu samkvæmt skoðanakönnunum sem og baráttan við glæpi. Vandamálið sé bara það að áherslur þeirra NKM og Hidalgo séu nánast þær sömu í þessum málaflokkum. Eini munurinn sé hversu margar nýjar íbúðir og leikskólar muni rísa og á hversu löngum tíma.

Heimilislausir illa séðir

En heimilislausir og atvinnulausir menn sem blaðamaður Guardian hitti að máli eru kannski ekki með fastmótaðar hugmyndir um hvar sé best að koma fyrir næstu sundlaug, næturklúbb eða veitingastað í borginni líkt og þær hafa rætt um á kosningafundum.

Mennirnir, sem eru á ólíkum aldri og uppruna, bera þess sterk merki að hafa haldið til á götunni lengi þar sem þeir standa í hnapp skammt frá Place de la République, við fyrrverandi neðanjarðarlestarstöðina Saint Martin. Stöðin er nú skýli fyrir heimilislausa og það sem þessir menn þurfa á að halda er kaffi, morgunverður, sturta og ráðgjöf. Jafnvel bækur til að lesa. Nokkuð sem þeim er veitt í athvarfinu sem er rekið af Hjálpræðishernum. En ekki er víst að þeim verði að ósk sinni. Að minnsta kosti ekki ef draumur margra verður að veruleika, að losna við fátæka út úr hverfinu og fá þess í staðinn fleiri auðmenn til að setjast þar að og reka fyrirtæki.

Guardian vísar í úttekt sinni í umfjöllun franskra fjölmiðla um þær Hidalgo og NKM og þau mistök sem þær hafa orðið uppvísar að í baráttunni. Má þar nefna þegar Hidalgo mætti á kynningarfund um hugmyndir sínar um framtíð Avenue Foche þar sem margir milljarðamæringar búa. Hún vill breyta breiðgötunni í grænt svæði og byggja stjórnsýslubyggingar, við litla hrifningu íbúanna. Mætti hún á kynningarfundinn á Smart bifreið sem þótti frekar fyndið og eiginlega vandræðaleg uppgerð hjá frambjóðandanum. Svona svipað því þegar borgarstjóri Lundúnaborgar, Boris Johnson, lét mynda sig í strætó, segir í grein Guardian.

Gæti verið auglýsing fyrir hrukkukrem

Ekki þótti betra þegar kosningaveggspjald Hidalgo var kynnt nýverið en myndin af frambjóðandanum þykir helst minna á auglýsingu fyrir hrukkukrem, svo mikið var búið að eiga við myndina. Eða eins og Jacques Séguéla, þekktur almannatengill í Frakklandi sagði í samtali við Le Parisien: „Það er bara ekkert eðlilegt við hana.“

En það eru ekki bara aðstoðarmenn Hidalgo sem hafa gert mistök við að koma sínum frambjóðenda í fréttirnar því NKM hefur átt sína spretti. Má þar nefna mynd af henni á reiðhjóli sem hægt er að fá lánað ókeypis hjá borginni (Vélib‘) með tvö þúsund evra handtösku í reiðhjólakörfunni. Ekki vöktu háu hælarnir sem hún var á þar sem hún þeysti um á skellinöðru minni athygli. Eða þegar hún gerði ítrekuð mistök er hún fjallaði fjálglega um leið 13 í neðanjarðarlestarkerfinu og hafði síðan ekki hugmynd um hvað lestarmiðinn kostaði, að því er segir í grein Guardian un síðustu helgi.

Skoðanakannanir sem hafa verið birtar undanfarnar vikur benda allar til þess að kosið verði á milli þeirra tveggja í annarri umferð kosninganna þann 30. mars nk. og að Hidalgo muni hafa betur með 54% atkvæða. En mjótt er á munum og ýmislegt getur gerst á lokasprettinum.

Nathalie Kociusko-Morizet og Anne Hidalgo eru í efri röð en …
Nathalie Kociusko-Morizet og Anne Hidalgo eru í efri röð en fyrir neðan eru aðrir frambjóðendur um borgarstjórastólinn.Christophe Najdovski,EELV, Danielle Simmonet -Parti de gauche - og Wallerand de Saint-just -Front national. AFP
Nathalie Kosciusko-Morizet
Nathalie Kosciusko-Morizet AFP
Anne Hidalgo
Anne Hidalgo AFP
Bertrand Delanoë borgarstjóri í París, Anne Hidalgo og Eric Lejoindre …
Bertrand Delanoë borgarstjóri í París, Anne Hidalgo og Eric Lejoindre sem sækist eftir starfi borgarstjóra í 18 hverfi AFP
Nathalie Kosciusko-Morizet
Nathalie Kosciusko-Morizet AFP
Anne Hidalgo kynnir hér áætlanir sínar fyrir Place de la …
Anne Hidalgo kynnir hér áætlanir sínar fyrir Place de la Bastille AFP
Nathalie Kosciusko-Morizet við Saint Lazare lestarstöðina
Nathalie Kosciusko-Morizet við Saint Lazare lestarstöðina AFP
Nathalie Kosciusko-Morizet
Nathalie Kosciusko-Morizet AFP
AFP
Anne Hidalgo
Anne Hidalgo AFP
Anne Hidalgo á landbúnaðarsýningunni í París
Anne Hidalgo á landbúnaðarsýningunni í París AFP
Anne Hidalgo á kostningafundi í 20. hverfi
Anne Hidalgo á kostningafundi í 20. hverfi AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert