Kim Jong-un var kosinn á þing

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu tilkynnti nú í kvöld að Kim Jong-un, hinn ungi leiðtogi landsins, væri ótvíræður sigurvegari í einu af kjördæmum landsins í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í gær. Kim bauð sig fram í kjördæmi númer 111, sem kennt er við fjallið Paektu, og fékk hann öll atkvæðin. Kjörsókn var 100%.

Nú getur leiðtoginn bætt þingmannstitlinum við umsvifamikið titlasafn sitt.

„Þetta er birtingarmynd algers stuðnings og djúpstæðs trausts fólksins í landinu á hinum einstaka leiðtoga Kim Jong-Un,“ sagði í frétt ríkisfréttastofunnar KCNA. „Fólkið er sem einn hugur í fylgispekt sinni við hann og hefur hann í hávegum.“

Boðið var fram í 700 kjördæmum, í hverju þeirra var einn í framboði og þóttu úrslitin því nokkuð fyrirsjáanleg. Norður-Kóreumönnum ber skylda til að kjósa og samkvæmt KCNA nýttu allir íbúar landsins kosningarétt sinn.

Þingið kemur saman 1-2 sinnum á ári

Þingkosningar eru haldnar fimmta hvert ár í landinu, en þetta voru þær fyrstu frá því að Kim Jong-Un tók við völdum. Þingið kemur saman einu sinni til tvisvar á ári, yfirleitt í einn dag í einu, til þess að samþykkja ákvarðanir Verkalýðsflokksins, sem er eini stjórnmálaflokkur landsins.

„Þetta er ekki fyrirmynd fyrir lýðræðisríki, það get ég sagt,“ sagði talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, Jen Psaki, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Kim Jong-Un á góðri stundu. Hann er nú þingmaður á …
Kim Jong-Un á góðri stundu. Hann er nú þingmaður á norður-kóreska þinginu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert