Vélin breytti óvænt um stefnu

Ættingjar og vinir þeirra sem eru um borð í vélinni …
Ættingjar og vinir þeirra sem eru um borð í vélinni halda enn í vonina. AFP

Samkvæmt mælitækjum malasíska lofthersins fór flugvélin sem saknað er óvænt af leið. Í fréttum BBC og Telegraph um málið segir að vélin hafi farið umtalsvert af fyrirhugaðri flugleið eða „mörg hundruð mílur“.

Leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, sagði frá því síðdegis í dag að hún útilokaði ekki að um hryðjuverk væri að ræða. Það hafði Interpol fyrr í dag dregið í efa.

Flugvélin var á leið frá Kuala Lumpur til Peking og hvar skyndilega af ratsjám á laugardag. 239 voru um borð. Umfangsmikil leit stendur yfir að vélinni.

Í fyrstu sögðu yfirvöld í Malasíu að vélin hefði horfið um klukkustund eftir flugtak, þá líklega á flugi yfir Suður-Kínahafi, suður af Víetnam. Ekkert neyðarkall barst en í frétt BBC segir að talið sé að flugstjórinn hafi reynt að snúa vélinni við, hugsanlega til að komast aftur til Kuala Lumpur.

Enn er á huldu hvað gerðist og hvar vélin er niðurkomin. Brak hefur fundist í sjónum en ekki er talið að það sé úr vélinni. Meirihluti farþeganna var frá Kína. Um borð voru einnig Evrópubúar og Bandaríkjamenn.

Ættingjar hafa ítrekað kvartað yfir að fá engar upplýsingar. Að minnsta kosti 40 skip og 34 flugvélar taka þátt í leitinni í hafinu við Malasíu og Víetnam. Björgunarsveitir frá Ástralíu, Kína, Taílandi, Indónesíu, Singapúr, Víetnam, Filippseyjum, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum taka þátt í leitinni.

Svæðið sem leitað er á nær í um 50 sjómílna radíus (93 km) frá staðnum þar sem vélin sást síðast á ratsjám.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert