Líkir ástandinu í Norður-Kóreu við helförina

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Bandarísk stjórnvöld lýstu því yfir í dag að þau styddu aðgerðir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna vegna stöðu mannréttindamála í Norður-Kóreu. Í nýrri skýrslu er fullyrt að meðferð stjórnvalda á almennum borgurum í Norður-Kóreu svipi til helfarar nasista gegn gyðingum í heimstyrjöldinni síðari.

Robert King, erindreki Bandaríkjanna hjá mannréttindaráði SÞ, sagðist sannfærður um að ráðið myndi samþykkja ályktun um þetta efni á næsta fundi þess í næstu viku. Hann sagði ennfremur að Bandaríkin myndu hafa forgöngu um að málið yrði tekið upp fyrir Öryggisráði SÞ. Þar hafa Kínverjar neitunarvald, en þeir hafa ekki viljað neinar aðgerðir vegna stöðu mannréttinda í Norður-Kóreu.

Umrædd skýrsla var unnin af Sameinuðu þjóðunum og þar er lýst pyntingum á almennum borgurum, þrældómi og kynferðislegu ofbeldi á vegum yfirvalda í Norður-Kóreu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert