ESB og Bandaríkin grípa til aðgerða

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Evrópusambandið og Bandaríkin hafa tilkynnt að ferðabann verði sett á fjölda úkraínskra og rússneskra embættismanna sem taldir eru tengjast þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór í gær þar sem yfirgnæfandi meirihluti greiddi atkvæði með því að sameinast Rússlandi. Stjórnvöld í Úkraínu, ESB og Bandaríkin hafa lýst atkvæðagreiðsluna ólögmæta. Einnig verða erlendar eignir embættismannanna frystar samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Tilkynnt var að loknum fundi utanríkisráðherra ríkja ESB að gripið yrði til aðgerða gegn 21 embættismanni. Utanríkisráðherra Litháens, Linas Linkevic, greindi í kjölfarið frá því á twittersíðu sinni að gert væri ráð fyrir frekari aðgerðum næstu daga. Aðgerðir bandarískra stjórnvalda beinast að sjö háttsettum rússneskum embættismönnum og þingmönnum og fjórum leiðtogum aðskilnaðarsinna á Krímskaga. Þar á meðal Sergei Aksyonov, starfandi forsætisráðherra Krím-héraðs, og Valentinu Matviyenko, forseta efri deildar rússneska þingsins.

Tilkynningar um aðgerðir ESB og Bandaríkjanna bárust nokkrum klukkustundum eftir að þing Krímhéraðs lýsti héraðið sjálfstætt ríki í kjölfar þjóðaratkvæðisins í gær. Stjórnvöld í Úkraínu hafa lýst því yfir að þau viðurkenni ekki niðurstöður þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert