Svimandi gróði af veiðiþjófnaði

Vopnaður þjóðgarðsvörður frá Kenya Wildlife Services stendur vörð um stóran …
Vopnaður þjóðgarðsvörður frá Kenya Wildlife Services stendur vörð um stóran smyglfarm fílabeins sem lagt var hald á í Naíróbí. AFP

Skipulögð glæpasamtök í Austur-Afríku græða óheyrilegar upphæðir á því að smygla fílabeini og nashyrningshornum út úr álfunni, án ótta við refsingu. Á síðasta ári sló magnið af fílabeini sem smyglað var til Asíu öll met, samkvæmt alþjóðalögreglunni Interpol. Fyrir hvern farm eru hundruð fíla drepin.

Borgirnar Mombasa í Keníu og Dar es Salaam í Tansaníu eru helstu flutningsleiðir fyrir fílabein frá Austur-Afríku til Asíu. Þar fer eftirspurnin vaxandi samhliða aukinni velsæld almennings, sérstaklega í Kína, að sögn UNODC, fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

Þetta hefur leitt til þess að veiðiþjófnaður hefur snaraukist í Afríku á síðustu árum og svipar nú til þess sem var þegar verst lét á 9. áratugnum. Interpol segir að umfang smyglsins bendi til þess að skipulögð glæpasamtök sem starfi heimsálfa á milli standi að baki veiðiþjófnaðinum.

Selt fyrir 3,5 milljarða króna á ári

Glæpasamtökin hafa augljóslega kunnuga heimamenn á sínum snærum og eru búin sjálfvirkum vopnum og sérstökum búnaði eins og nætursjónaukum og keðjusögum, til að losa nashyrningshorn og skögultennur fíla.

Richard Leaky, sem um árabil hefur unnið að dýraverndunarmálum í Keníu, segir að grípa verði til róttækra aðgerða gegn glæpamönnunum. „Þeir gætu ekki starfað eins og þeir gera, án ótta við refsingu, ef ekki væri fyrir einhvers konar vernd frá lögregluyfirvöldum,“ segir Leakey.

Hann hefur biðlað til forseta Keníu, Uhuru Kenyatta, um að beita sér í málinu. Leakey telur að um 20-30 manns standi að skipulagningu og framkvæmd meiriháttar veiðiþjófnaðar, sem felur í sér slátrun hundraða dýra. 

Ávinningurinn er mikill. Eitt kíló af fílabeini selst fyrir um 850 Bandaríkjadali, sem nemur tæpum 100.000 krónum í Asíu og UNODC áætlar að árið 2011 hafi alls verið smyglað fílabeini fyrir 31 milljón dala, 3,5 milljarða króna.

Afleiðingar fyrir dýralífið og efnahag Afríkuþjóða

Á meðan veiðiþjófar og smyglarar græða óttast ferðaþjónustan í Keníu og Tansaníu yfirvofandi tap, því flestir ferðamenn koma til að fara í safarí og sjá villt dýralíf. Á eftir landbúnaði er það í gegnum ferðaþjónustu sem erlendur gjaldeyrir fæst inn í hagkerfi þessara fátæku landa og hagsmunirnir eru því miklir.

„Afríkufíllinn er ekki talinn í útrýmingarhættu eins og er sem tegund, en hið stórfellda dráp á þeim í Afríku gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir stofninn,“ segir í skýrslu UNODC.

Reglulega finna tollyfirvöld í Keníu og Tansaníu fulla gáma af fílabeini, sem oftar en ekki er falið undir illa lyktandi fiski eða þurrkuðu chili, til að rugla þefhunda tollvarða í ríminu. Flestir þessara gáma eru á leið til Kína, þar sem fílabein er stöðutákn fyrir fjárhagslega velgengni.

Refsingar hertar en flestir sleppa

Smygl á nashyrningshornum er fyrst og fremst til Asíu frá suðurhluta Afríku, þar sem fleiri nashyrninga er að finna en í Austur-Afríku. Hornunum er oftar en ekki smyglað með flugi, enda eru þau smærri um sig en skögultennur fíla

Fjöldi nashyrninga er þó líka drepinn árlega í Austur-Afríku, þrátt fyrir að þjóðgarðsverðir leggi jafnvel líf sitt í hættu til að reyna að vernda þá. 

Yfirvöld í Afríku hafa brugðist við með því að þyngja dóma fyrir veiðiþjófnað. Fyrr í þessum mánuði var kínverskur smyglari sem dæmi dæmdur í 20 ára fangelsi. Slíkir dómar eru þó enn afar fátíðir og flestir sem standa að veiðiþjófnaði og smygli sleppa án refsingar.

Nýleg rannsókn sem dýraverndunarsamtökin Wildlife Direct í Keníu gerðu leiddi í ljós að aðeins 4% þeirra sem fundnir eru sekir um glæpi gegn dýralífinu í landinu sitja inni.

Árangur náðist á 9. áratugnum

Leakey, sem er 69 ára, segir að með réttum aðgerðum sé „ekki ómögulegt“ að stemma stigu við skipulögðum veiðiþjófnaði. Hann var áður framkvæmdastjóri Kenya Wildlife Service og átti heiðurinn af því að verulega dró úr veiðiþjófnaði á 9. áratug síðustu aldar.

Meðal þeirra aðgerða sem gripið var til þá var að leita veiðiþjófana uppi á vopnuðum þyrlum og skipuleggja opinbera brennslu á fílabeini sem lagt var hald á.

„Fílabein er ekki verðmæti, það er dapurlegt rusl,“ segir Leaky. „Þetta stefnir arfleifð okkar í hættu. Það er hægt að rækta aftur uppskeru sem bregst, en þú getur ekki ræktað aftur villta dýrategund sem hverfur.“

Afríkufíll í Amboseli þjóðgarðinum í Kenýa. Slátrun veiðiþjófa á fílum …
Afríkufíll í Amboseli þjóðgarðinum í Kenýa. Slátrun veiðiþjófa á fílum gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir tegundina. AFP
Nashyrningar kljást. Kvendýrið, til vinstri varð fyrir árás veiðiþjófa sem …
Nashyrningar kljást. Kvendýrið, til vinstri varð fyrir árás veiðiþjófa sem söguðu af henni hornið. AFP
Richard Leakey, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kenya Wildlife Service, segir að grípa …
Richard Leakey, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kenya Wildlife Service, segir að grípa þurfi til róttækra aðgerða gegn veiðiþjófum líkt og gert var á 9. áratugnum. AFP
Þremur tonnum af ólöglegu fílabeini var eytt opinberlega við Eiffelturninn …
Þremur tonnum af ólöglegu fílabeini var eytt opinberlega við Eiffelturninn í París á dögunum. Frönsk stjórnvöld vildu vekja athygli almennings á smyglinu. AFP
Ferðamenn í safarí virða fyrir sér nashyrning. Mörghundruð nashyrningar eru …
Ferðamenn í safarí virða fyrir sér nashyrning. Mörghundruð nashyrningar eru drepnir árlega í Afríku. AFP
Kínverjinn Tang Yong Jian var fyrr á árinu dæmdur í …
Kínverjinn Tang Yong Jian var fyrr á árinu dæmdur í 20 ára fangelsi í Kenýa fyrir smygl á fílabeini. AFP
Leakey vill að fílabein sem hald er lagt á verði …
Leakey vill að fílabein sem hald er lagt á verði brennt opinberlega til að undirstrika að það sé ekki í eðli sínu verðmæti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert