Hvað gerðist í flugvélinni?

Forsætisráðherra Malasíu greindi frá því í dag að malasíska flugvélin sem leitað hefur verið að síðan 8. mars síðastliðinn hefði hrapað yfir miðju Indlandshafi með 239 manns um borð. Margar og misvísandi upplýsingar hafa komið fram frá því vélin hvarf með öllu af ratsjám og ljóst má vera að um eitt dularfyllsta flughvarf sögunnar er að ræða. 

Hér verður atburðarásin rifjuð upp. 

Hvað hefur komið fram um flughæðina?

Flugvélin var að nálgast víetnamska lofthelgi þegar flugmenn vélarinnar kvöddu malasísku flugumferðarstjórnina með sínum síðustu orðum: „Allt í lagi, góða nótt.“ Þá var vélin í um 35 þúsund feta hæð og stefndi á Peking.

Haft var eftir heimildarmanni CNN sem tók þátt í rannsókn á hvarfi vélarinnar að eftir það hafi vélin hins vegar sést  á ratsjá í eigu malasíska hersins þar sem hún virtist lækka flugið, taka skarpa beygju og fljúga að Malacca-sundi sem tengir Indlandshaf við Suður-Kínahaf.

Samkvæmt ratsjárgögnunum hafði vélin þá lækkað hæð sína í um 12 þúsund fet en hvarf svo skömmu síðar fyrir fullt og allt. Heimildarmaðurinn sagði að mikil flugumferð væri vanalega á fyrrgreindu svæði, og undir venjulegum kringumstæðum hefði því líklega einhver átt að verða var við för vélarinnar, en hafi henni einungis verið flogið í 12 þúsund fetum hafi slík umferð ekki truflað för hennar.

Samkvæmt sömu heimildum eru ratsjármerkin frá því á milli klukkan 1:19 og 2:40 um nóttina sem hún hvarf, en ekki liggur þó fyrir hvenær vélin lækkaði flugið.

Hvers vegna ætti vélin að lækka flugið?

Sumir sérfræðingar segja að einhvers konar bilun í vél flugvélarinnar gæti útskýrt það, en Mary Schiaco, fyrrverandi skoðunarmaður hjá samgönguráðuneyti Bandaríkjanna, segir það vera ljóst að slíkar upplýsingar um hæð vélarinnar skipti gríðarlegu máli við rannsókn málsins.

„Þetta útskýrir svo margt sem við skildum ekki áður,“ sagði hún. „Ef eitthvað alvarlegt gerist um borð í flugvél, svo sem ef loftþrýstingur lækkar verulega, eldsvoði verður eða spenging, þá ætti það fyrsta sem flugmaður myndi gera vera að lækka flugið, snúa við og leita að flugvelli sem aðstoðað gæti vél í hættu,“ sagði hún.

Aðrir sérfræðingar hafa þó sagt þetta vera ótímabærar vangaveltur og telja óljóst hvort upplýsingarnar um hæð vélarinnar séu áreiðanlegar. „Við höfum fengið svo mikið af misvísandi upplýsingum, þannig að ég vara við því að draga strax einhverjar ályktanir þar um,“ sagði Mark Weiss, fyrrverandi flugmaður American Airlines.

Var það skipulagt að beygja af leið?

Malasísk yfirvöld sögðu í gær að síðasta sendingin frá vélinni sýndi að hún hefði stefnt beint á Peking sem samrýmist ekki sögusögnum um að einhver hafi forritað tölvur vélarinnar  upp á nýtt til að breyta um stefnu áður en aðstoðarflugstjórinn hafði samband við flugumferðarstjórnina í Malasíu í síðasta skipti.

„Ekkert óvenjulegt kom fram í síðustu samskiptunum klukkan 1:07,“ sagði í yfirlýsingu frá malasískum yfirvöldum.

Sérfræðingar segja þetta draga úr líkum á því að eitthvað óvenjulegt hafi átt sér stað í flugstjórnarklefanum og virðist það betur samræmast kenningum um að einhvers konar neyðarástand hafi leitt til þess að flugmennirnir hafi neyðst til þess að breyta um stefnu þó svo það útiloki ekki aðra möguleika að fullu.

Hverjir hafa leitað að vélinni og á hvaða svæðum?

25 lönd tóku þátt í leitinni á gríðarstóru svæði. Leitarsvæðin voru mörkuð upp eftir gervihnattamyndum þar sem flugvélin var talin geta verið, m.a. yfir Kambódíu, Laos, Kína og Kasakstan.

Megináherslan var að lokum lögð á leitarsvæði við Ástralíu eftir að tveir hlutir, sá stærri um 24 metrar að lengd, sáust ógreinilega á gervihnattamyndum.

Í dag greindi forsætisráðherra Malasíu að lokum frá því að samkvæmt nýjum gögnum hefði  véli verið yfir miðju Indlandshafi, í um 2.500 km fjarlægð suðvestur af borginni Perth í Ástralíu, er hún hrapaði og gert væri ráð fyrir því að allir sem voru um borð hefðu látið lífið.

Forsætisráðherra Malasíu segir vélina hafa hrapað yfir miðju Indlandshafi.
Forsætisráðherra Malasíu segir vélina hafa hrapað yfir miðju Indlandshafi. AFP
Þar sem talið er að flugvélin hafi hrapað.
Þar sem talið er að flugvélin hafi hrapað.
Leitarsvæðið
Leitarsvæðið
Malaysia Airlines þotan
Malaysia Airlines þotan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert